Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fim 25. maí 2023 11:11
Haraldur Örn Haraldsson
„Velgengni karlmanna er meira virði en velgengni kvenna"
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðablik í sumar.
Í leik með Breiðablik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á Evrópumótinu síðasta sumar.
Í leik á Evrópumótinu síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda og strákarnir í Tiltalinu.
Áslaug Munda og strákarnir í Tiltalinu.
Mynd: Stefan Marteinn - fotbolti.net
'Þetta hugarfar þarf að brenna'
'Þetta hugarfar þarf að brenna'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var gestur í nýjasta þættinum af Tiltalið hér á Fótbolta.net þar sem hún svaraði ýmsum spurningum og fór yfir sinn feril.

Hún fylgdi líka á eftir Jasmín Erlu Ingadóttur og ræddi um launamismuninn í karla- og kvennaboltanum á Íslandi. Hún segir að umræðan þurfi að vera virk.

„Mér finnst þetta vera svolítið tabú. Það koma alltaf upp einhver mál eins og núna nýlega með Fantasy-deildina og þetta ÍTF dæmi, það er bara búið að vera mjög mikið um þetta. Þetta (umræðan) hitnar en síðan er bara: „Uss, uss, uss, þetta er allt í lagi," segir Áslaug Munda um umræðuna sem hefur skapast um jafnrétti innan íþróttarinnar.

Mikilvægt að umræðan deyi ekki
„Þess vegna er mjög mikilvægt að minna á þetta jafnóðum. Þetta er ógeðslega pirrandi og ég hef hugsað mjög mikið um þetta," segir landsliðskonan og bætir við:

„Í fyrsta lagi þá fer þetta gegn landslögum. Þetta er bara jafnrétti kynja; þú átt bara að borga öllum kynjum jafn mikið fyrir sömu vinnu. Svo fer það auðvitað eftir hvort þú sért með hærri gráðu eða meiri reynslu. Þetta snýst um grunnlínu og við konur erum ekki að biðja um að draga karlana niður eða aðra. Við erum bara að segja: 'Hvað með að hafa sömu standarda? Hvað með að hafa bara sömu grunnlínu?' Og svo fer þetta bara eftir hvort þú sért búinn að vera að spila með PSG eða eitthvað og kemur heim."

„Sá leikmaður má fá meira en ég, en leikmaður sem að er kannski að spila með meistaraflokki karla Breiðabliks - bara til dæmis - og er ekki einu sinni í hópnum hjá þeim er að fá þrefalt, fjórfalt meira heldur en leikmaður hjá Breiðabliki (kvenna) sem er búinn að vera spila í aðalhlutverki og jafnvel í A-landsliðinu. Sá leikmaður á jafnvel erfitt með að fá eitthvað, nógu mikið til að lifa á því og ekki einu sinni það."

Jasmín Erla, leikmaður Stjörnunnar, var gestur í Tiltalinu fyrir tveimur vikum þar sem hún talaði um það þegar bróðir hennar, Kristall Máni Ingason, sem er fjórum árum yngri en hún, kom heim úr unglingaliði FC Kaupmannahafnar í Danmörku og fékk þá samning sem hún myndi líkast til aldrei sjá á sínum ferli. Jafnvel þó svo að hún hefði töluvert meiri reynslu af meistaraflokks fótbolta og hefði lengi verið í stóru hlutverki í efstu deild á Íslandi. Það kemur Áslaugu ekki á óvart en hún segir það líklegt að það verði alltaf þannig.

„Við spyrjum alltaf af þessu, eins og þegar ég er í samningaviðræðum þá spyr ég: 'Af hverju ekki? Eru þið með einhverja ástæðu fyrir þessu?' Þá kemur eiginlega ekkert svar. Það er eiginlega alltaf bara notað að það sé miklu meira áhorf eða að það sé miklu meiri peningur karlamegin. En þetta er eitt félag, þetta er eitt fyrirtæki sem er með iðkendur eða leikmenn sem eru að leggja sömu vinnu í þetta. Þó að heimurinn er það 'messed up' að karlamegin ertu bara að skíta peningum á meðan konurnar eru að vinna þrefalt. Þú ert kannski í átta til fjögur vinnu, ferð á æfingu og ert kannski á kvöldvakt eftir á bara til þess að halda þér uppi. Þetta er ekki réttlátt gagnvart neinum," segir Áslaug Munda.

Þetta hugarfar þarf bara að brenna
Áhorfendatölur hafa verið að hækka mjög mikið í kvennaboltanum undanfarin ár þar sem félög á Spáni, Englandi og annars staðar hafa verið að fylla risastóra leikvanga - áhuginn er að verða meiri. Kvennaboltinn og öll umgjörð í kringum hann, þar á meðal launamálin, er á uppleið í heiminum.

„Velgengni karlmanna er meira virði en velgengni kvenna," segir Áslaug Munda. „Það er bara þannig samkvæmt sögunni, þá er þetta hugarfar ennþá í öllum. Árið er 2023, við erum ekki ennþá þannig að konur eru bara heima að sópa á meðan karlarnir vinna. Mér var kennt í skólanum í vor að ef ég myndi útskrifast úr Harvard með sömu gráðu og karl myndi útskrifast með, og ef við myndum fara inn á sama vinnustað og gera nákvæmlega það sama þá væri launamismunurinn milli okkar margfalt meiri heldur en launamismunurinn ef við hefðum verið í minna virtum háskóla."

Áslaug stundar nám við Harvard, einn virstasta háskóla í heimi. „Því hærra sem þú ert (karlamegin) eins og í Barcelona þá ertu bara góður fyrir lífstíð. Á meðan konurnar eru það ekki. Launamunurinn þar á milli hækkar alltaf því hærra sem þú kemst. Þá er það bara þannig að velgengni karlmanna er meira virði en velgengni kvenna. Þetta hugarfar þarf bara að brenna, þetta er bara ekki í lagi."

Margir leikmenn í íslenskum fótbolta vinna í öðrum vinnum samhliða fótboltanum. Hins vegar geta margir í karlaboltanum oft verið í hlutastarfi til þess að geta einbeitt sér meira að fótboltanum en konurnar eru yfirleitt á það lágum launum hjá félögunum að þær þurfa að vinna fullt starf með. Það er klárlega hægt að setja spurningamerki við það að launamismunurinn í íslenskum fótbolta sé svona mikill.

„Ef þú ert að vinna átta til fjögur vinnu þá getur þú aldrei lagt jafnmikið á þig á æfingu eða gefið jafnmikla orku í æfinguna af því að þú ert búin að vera á fullu síðan klukkan átta. Þegar ég fór á reynslu hjá PSG í Frakklandi, þá fórum við á æfingu um morguninn og það var ógeðslega erfið æfing, erfiðasta æfingin sem ég hef farið á í lífinu. Ég hefði aldrei getað farið á þessa æfingu eftir að hafa verið búin að vinna átta til fjögur. Síðan hefur fólk tíma yfir daginn til að ná sér og borða vel, og mæta síðan á æfingu daginn eftir eða bara seinni partinn til að gera það sama aftur."

„Þetta myndi aldrei virka ef leikmenn væru að vinna átta til fjögur eða í skóla með. Eins og ég er í skóla, fer beint á æfingu, kem beint heim og þarf að læra. Þá er klukkan orðin margt og ég þarf að hugsa hvort ég sé búin að borða og allt þetta. Þetta er miklu meira en fólk heldur," segir Áslaug Munda en til að ná sem mestum árangri í fótbolta og öðrum íþróttum þá þarf að leggja mikið í það.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér fyrir neðan.
Tiltalið: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner