Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 25. júlí 2021 21:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Breiðablik í brekku í baráttunni um þann stóra
Valur og Víkingur tvö efstu liðin
Glæsilegur sigur Keflvíkinga staðreynd.
Glæsilegur sigur Keflvíkinga staðreynd.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick Pedersen skoraði fyrir Valsmenn á besta tíma.
Patrick Pedersen skoraði fyrir Valsmenn á besta tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markaskorarar Víkings í kvöld.
Markaskorarar Víkings í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar litið er á töfluna í Pepsi Max-deildina, þá virðist sem það sé tveggja hesta kapphlaup um titilinn - eftir úrslit kvöldsins.

Breiðablik tapaði nefnilega óvænt gegn Keflavík á útivelli, en það er ekki hægt að útiloka Blikana þó þeir séu í smá brekku núna. Þeir eiga leik til góða á efstu tvö liðin, sem unnu bæði leiki sína í kvöld.

Það var í raun með ólíkindum að staðan í hálfleik í Keflavík var 1-0 fyrir heimamenn. Joey Gibbs skoraði undir lok hálfleiksins eftir mistök í vörn Blika. „Anton Ari gaf stutt á Viktor Örn í teignum, Viktor gáði ekki að sér inni í teignum, Joey Gibbs kom aftan að honum, hirti af honum boltann og renndi i markið. Virkilega klaufalegt," skrifaði Hafliði Breiðfjörð í beinni textalýsingu.

Frans Elvarsson kom Keflavík í 2-0 snemma í seinni hálfleik. Breiðablik fékk kjörið tækifæri til að minnka muninn stuttu síðar en Thomas Mikkelsen klikkaði á vítapunktinum.

„Þriðja dauðafærið sem Mikkelsen er að klúðra í þessum leik. Sá er ekki að þakka fyrir byrjunarliðssætið," skrifaði Hafliði þegar Mikkelsen skaut í stöngina af vítapuktinum.

Þetta var ekki dagur Mikkelsen og ekki dagur Blika því leikurinn endaði 2-0 fyrir Keflavík. Blikar hafa verið á flottu skriði að undanförnu en þessi úrslit setja svo sannarlega strik í reikninginn. Blikar er í þriðja sæti, sjö stigum frá toppnum en með leik til góða á Val. Þetta eru frábær úrslit fyrir Keflavík sem er í áttunda sæti með 16 stig eftir 13 leiki spilaða.

Valur og Víkingur efstu tvö liðin
Valur heldur toppsætinu í deildinni. Valsmenn hafa strögglað nokkuð að undanförnu og töpuðu þeir til að mynda gegn botnliði ÍA um síðustu helgi.

Þeir fóru hins vegar inn í Kórinn í kvöld og mættu þar HK-liði sem hefur verið í alls konar veseni á þessu tímabili og alls ekki litið vel út.

HK byrjaði betur. „HK eru miklu betri og miklu áræðnari en Valsmenn. Það liggur HK mark í loftinu. Eitthvað sem segir mér að Heimir Guðjónsson sé verulega ósáttur við leik sinna manna," skrifaði Matthías Freyr Matthíason um miðbik fyrri hálfleik og í sókninni eftir átti Birnir Snær Ingason skot í stöngina.

Það fellur hins vegar ekkert með HK og Valur tók forystuna á besta tíma; Patrick Pedersen skoraði rétt fyrir leikhlé og var staðan 0-1 í hálfleik.

Birkir Már Sævarsson kom Val í 0-2 snemma í seinni hálfleik og Andri Adolphsson gekk frá leiknum um miðbik seinni hálfleiks.

Lokatölur 0-3 fyrir Val sem er með eins stigs forystu á Víkinga á toppi deildarinnar.

Víkingar byrjuðu ekki vel gegn Stjörnunni en fóru þar með sigur af hólmi. Danski sóknarmaðurinn Oliver Haurits kom Stjörnunni yfir snemma leiks með einu af mörkum tímabilsins.

Nikolaj Hansen hefur verið algjörlega magnaður í sumar og hann jafnaði metin stuttu fyrir leikhlé. Hann kom svo Víkingi yfir þegar seinni hálfleikur var ungur, stuttu áður en Haraldur Björnsson fór meiddur af velli.

Helgi Guðjónsson gerði út um leikinn á 69. mínútu eftir flotta sendingu frá Atla Barkarsyni. Emil Atlason minnkaði reyndar muninn undir lokin fyrir Stjörnuna en það var of lítið, of seint.

Víkingar eru með í baráttunni um titilinn en Stjarnan er í fallbaráttu. Stjarnan er þremur stigum frá fallsæti eftir 14 leiki spilaða og mikið vonbrigðartímabil í Garðabæ.

HK 0 - 3 Valur
0-1 Patrick Pedersen ('44 )
0-2 Birkir Már Sævarsson ('48 )
0-3 Andri Adolphsson ('66 )
Lestu um leikinn

Keflavík 2 - 0 Breiðablik
1-0 Josep Arthur Gibbs ('44 )
2-0 Frans Elvarsson ('47 )
2-0 Thomas Mikkelsen ('54 , misnotað víti)
Lestu um leikinn

Víkingur R. 3 - 2 Stjarnan
0-1 Oliver Haurits ('8 )
1-1 Nikolaj Andreas Hansen ('36 )
2-1 Nikolaj Andreas Hansen ('47 )
3-1 Helgi Guðjónsson ('69 )
3-2 Emil Atlason ('93 )
Lestu um leikinn

Önnur úrslit í kvöld:
Pepsi Max-deildin: Lennon magnaður og KA vann á erfiðum útivelli
Athugasemdir
banner
banner
banner