Tottenham reynir við Savinho og Paz - Ensk stórlið vilja Rodrygo - Donnarumma með munnlegt samkomulag við City
banner
   mán 25. ágúst 2025 21:06
Ívan Guðjón Baldursson
England: Ngumoha hetjan eftir ótrúlega dramatík í Newcastle
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Newcastle 2 - 3 Liverpool
0-1 Ryan Gravenberch ('35)
0-2 Hugo Ekitike ('46)
1-2 Bruno Guimaraes ('57)
2-2 William Osula ('88)
2-3 Rio Ngumoha ('100)
Rautt spjald: Anthony Gordon, Newcastle ('45+3)

Newcastle United tók á móti Liverpool í lokaleik 2. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar og úr var ótrúlegur leikur. Heimamenn í Newcastle voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu ótal hættulegar stöður án þess að skora eða trufla Alisson Becker neitt sérlega mikið.

Þess í stað skoraði Ryan Gravenberch fyrsta markið þvert gegn gangi leiksins eftir um hálftímaleik. Hann átti laglegt skot utan teigs sem fór framhjá tveimur varnarmönnum og í stöngina og inn.

Leikmenn Newcastle virtust vera að missa hausinn undir lok fyrri hálfleiks og lét Anthony Gordon reka sig af velli fyrir einstaklega heimskulegt brot langt úti á velli. Hann straujaði Virgil van Dijk fyrirliða Liverpool illa aftan frá og fékk reisupassann eftir nána athugun í VAR-herberginu.

   25.08.2025 20:05
Sjáðu atvikið: Gordon fékk beint rautt gegn Liverpool


Staðan var því 0-1 í leikhlé og Newcastle manni færri. Hugo Ekitike skoraði svo eftir 20 sekúndur í síðari hálfleik og virtist nánast öll von vera úti fyrir Newcastle.

Lærisveinar Eddie Howe gáfu þó ekkert eftir og börðust eins og ljón. Þeir gáfu Englandsmeisturunum ekki tækifæri til að komast í góð færi og minnkaði Bruno Guimaraes muninn á 57. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Tino Livramento.

Liverpool hélt boltanum vel innan liðsins en tókst ekki að skapa sér neitt gegn baráttuglöðum Newcastle-mönnum. Tíu heimamenn voru hættulegir í sínum sóknaraðgerðum. Framherjinn ungi William Osula, 22 ára Dani, kom inn af bekknum og jafnaði leikinn ellefu mínútum síðar.

Newcastle verðskuldaði jöfnunarmarkið sem leit dagsins ljós á 88. mínútu, þegar Osula gerði virkilega vel að klára eftir langa aukaspyrnu frá eigin vallarhelmingi. Varnarmenn Liverpool sváfu á verðinum og hleyptu Osula framhjá sér.

Ellefu mínútum var bætt við og virtust heimamenn líklegri heldur en gestirnir til þess að gera sigurmarkið. Þeir sköpuðu þó ekki hættuleg færi en þess í stað tókst Englandsmeisturunum að setja boltann í netið. Táningurinn umtalaði Rio Ngumoha kom inn af bekknum og gerði sigurmarkið á 100. mínútu, eftir lága fyrirgjöf frá Mohamed Salah og frábæra gabbhreyfingu hjá Dominik Szoboszlai sem hleypti boltanum í gegnum klofið á sér.

Newcastle fékk aukaspyrnu og hornspyrnu á síðustu sekúndunum og var Nick Pope markvörður meðal leikmanna í vítateignum en tókst ekki að gera jöfnunarmark. Lokatölur 2-3 eftir ótrúlega dramatík.
Athugasemdir
banner
banner