Gera lokatilraun til að lokka Bruno Fernandes - Höjlund til Napoli - Rodgers aftur í úrvalsdeildina?
   sun 24. ágúst 2025 15:03
Brynjar Ingi Erluson
England: Fullkominn dagur hjá Everton - Grealish lagði upp tvö og Pickford í essinu sínu
Jordan Pickford varði víti og átti nokkrar frábærar vörslur á þessum gleðidegi
Jordan Pickford varði víti og átti nokkrar frábærar vörslur á þessum gleðidegi
Mynd: EPA
James Garner skoraði með þrumufleyg
James Garner skoraði með þrumufleyg
Mynd: EPA
Callum Hudson-Odoi bjargaði stigi fyrir Forest
Callum Hudson-Odoi bjargaði stigi fyrir Forest
Mynd: EPA
Stuðningsmenn Everton hafa ástæðu til að fagna í kvöld eftir að liðið vann 2-0 sigur á Brighton í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Hill Dickinson, nýjum leikvangi félagsins, í dag.

Everton hefur lengi beðið eftir því að komast á nýjan leikvang eftir að hafa spilað á Goodison Park frá 1892.

Mikil gleði var á nýja leikvanginum sem tekur 53 þúsund manns í sæti.

Brighton-liðið leit mjög vel út í byrjun leiks. Það var að skapa urmul af færum en það vantaði að klára þau. Kaoru MItoma átti skot á lofti sem hafnaði í þverslá og yfir áður en Danny Welbeck fór illa með dauðafæri.

Everton refsaði nokkrum mínútum síðar. Jack Grealish, sem var að byrja sinn fyrsta leik með Everton, fékk boltann úti vinstra megin, keyrði upp að endalínu áður en hann kom föstum bolta fyrir á Iliman Ndiaye sem skoraði fyrsta markið á nýja vellinum og skráði sig um leið í sögubækurnar.

Jan Paul van Hecke, varnarmaður Brighton, komst nálægt því að jafna metin á 38. mínútu er hann þrumaði boltanum af löngu færi en boltinn small í stönginni.

Matt O'Riley átti heiðarlega tilraun undir lok hálfleiksins sem Jordan Pickford varði. Ekkert að ganga upp hjá Brighton og var svipuð uppskrift í þeim síðari.

Everton átti þennan dag og segir það ýmislegt þegar James Garner skoraði annað markið með þrumuskoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Grealish.

Grealish 'tíaði' boltann fyrir Garner sem hamraði honum hnitmiðað í nærhornið. Þetta var fyrsta mark Garner fyrir Everton síðan í lok árs 2023.

Pickford hélt áfram að standa sig á milli stanganna. Hann varði skot Yasin Ayari á 60. mínútu og rúmlega tíu mínútum síðar varði hann góða vítaspyrnu Welbeck eftir að Kiernan Dewsbury-Hall fékk boltann í höndina í teignum.

Portúgalski framherjinn Beto fékk færi til þess að gera út um leikinn nokkrum mínútum fyrir leikslok en setti boltann yfir af stuttu færi.

Flott frammistaða hjá Everton-mönnum á þessum gleðidegi, en Brighton-menn naga sig í handarbökin að hafa ekki nýtt sín færi í dag. Everton er komið með þrjú stig á meðan Brighton er með aðeins eitt.

Palace og Forest skildu jöfn

Crystal Palace og Nottingham Forest skildu jöfn, 1-1, á Selhurst Park.

Liðin ógnuðu markinu lítið fyrsta hálftímann og var það ekki fyrr en á 32. mínútu er Jean-Philippe Mateta tókst að eiga fyrsta alvöru færi leiksins er hann þrumaði boltanum á mark Forest en Matz Sels gerði vel í markinu.

Marc Guehi, fyrirliði Palace, átti því næst skalla í átt að marki eftir hornspyrnu sem Sels var í engum vandræðum með áður en Ismaila Sarr tók forystuna fyrir heimamenn.

Daniel Munoz fékk boltann hægra megin í teignum, kom honum inn á miðjan teiginn á Sarr sem skoraði með viðstöðulausu skoti í hægra hornið. Fyrsta mark Palace á tímabilinu.

Guehi gat tvöfaldað forystuna undir lok hálfleiksins er hann stangaði aukaspyrnu í stöngina. Færðist nær og nær því að skora, en þetta var ekki alveg hans dagur fyrir framan markið í mögulega síðasta leik sínum með Palace.

Þegar um tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum sváfu varnarmenn Palace á verðinum. Dan Ndoye stakk frábærum fótbolta inn fyrir á Callum Hudson-Odoi sem setti boltann í nærhornið.

Forest gat stolið öllum stigunum undir lok leiksins er Igor Jesus, sem var ný kominn inn á sem varamaður, fékk boltann, en tilraun hans hafnaði í stönginni. Boltinn datt fyrir Omari Hutchinson sem náði ekki að gera sér mat úr frákastinu.

Lokatölur á Selhurst Park, 1-1. Forest er með fjögur stig en Palace tvö stig.

Crystal Palace 1 - 1 Nott. Forest
1-0 Ismaila Sarr ('37 )
1-1 Callum Hudson-Odoi ('57 )

Everton 2 - 0 Brighton
1-0 Iliman Ndiaye ('23 )
2-0 James Garner ('52 )
2-0 Danny Welbeck ('77 , Misnotað víti)
Athugasemdir
banner
banner