Gera lokatilraun til að lokka Bruno Fernandes - Höjlund til Napoli - Rodgers aftur í úrvalsdeildina?
   sun 24. ágúst 2025 17:00
Brynjar Ingi Erluson
Meiðsli Saka og Ödegaard ekki eins alvarleg og talið var
Mynd: EPA
Bukayo Saka og Martin Ödegaard fóru báðir af velli í 5-0 stórsigri Arsenal á Leeds í gær en óttast var að þeir yrðu frá í að minnsta kosti nokkrar vikur. Sky Sports segir meiðslin ekki jafn alvarleg og óttast var í fyrstu.

Norðmaðurinn fór af velli í fyrri hálfleik vegna eymsla í öxl á meðan Saka fann til aftan í læri og þurfti að fara af velli strax í byrjun síðari hálfleiks.

Saka var frá í þrjá mánuði á síðustu leiktíð vegna meiðsla aftan í læri og því kannski eðlilegt að hafa áhyggjur af þessu.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, sagði eftir leikinn að það þyrfti eitthvað mikið til að Saka færi af velli og óttaðist hann það versta, en Sky segir andrúmsloftið töluvert betra eftir fyrstu niðurstöður úr rannsóknum.

Ekki er alveg vitað hvort þeir verði klárir fyrir stórleikinn gegn Liverpool í næstu umferð, en horfurnar eru góðar.
Athugasemdir
banner