Virgil van Dijk fyrirliði Liverpool svaraði spurningum eftir dramatískan sigur í Newcastle í kvöld.
Liverpool tók forystuna gegn gangi leiksins í fyrri hálfleik og fékk Anthony Gordon svo beint rautt spjald fyrir grófa tæklingu aftan í Van Dijk.
„Eftir tæklinguna sagði ég strax að ef þetta er ekki rautt spjald þá skil ég ekki fótbolta. Mér fannst skrýtið að dómarinn hafi þurft að fara í skjáinn til að dæma þetta," sagði Van Dijk. „Svona hlutir gerast í fótbolta. Hvort sem þetta var viljaverk eða ekki þá gerðist það, en við höldum áfram með lífið."
Sextán ára gamall Rio Ngumoha kom inn af bekknum í uppbótartímanum, á 96. mínútu leiksins. Staðan var þá 2-2 og geystist Liverpool upp í frábæra sókn sem endaði með marki hjá Ngumoha sjálfum.
„Þetta er draumabyrjun fyrir Rio (Ngumoha). Hann skoraði eftir fullkomna sókn. Við gerðum virkilega vel að halda okkur rólegum og yfirveguðum til að skora þetta mark á lokamínútunum.
„Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Ég er búinn að segja við hann að þetta byrjar allt hér. Hann þarf að halda áfram að leggja mikla vinnu á sig og vera hógvær ef hann vill ná langt. En hann þarf líka að njóta stundarinnar útaf því að það má ekki taka þessu sem gefnu. Hann getur notið sín í kvöld en það er erfið æfing framundan á morgun."
25.08.2025 21:06
England: Ngumoha hetjan eftir ótrúlega dramatík í Newcastle
Athugasemdir