„Þetta var bara jafn leikur, baráttu leikur, örugglega ekki skemmtilegur leikur að horfa á," sagði Þorlákur Már Árnason þjálfari ÍBV eftir 1-1 jafntefli við FH í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 ÍBV
„Það var lítið um færi, FH-ingar bökkuðu á okkur þannig við fundum ekki mikið af svæðum til að spila í fyrir aftan þá. Leikurinn var bara ein stöðubarátta, mér fannst FH-ingarnir, fyrsta korterið í seinni hálfleik vera betra liðið. Það var kaflinn sem mér fannst að annað liðið væri sterkara. Svo fáum við opnanir eftir að við skiptum inn á. Jörgen fær dauðafæri í stöðunni 0-0, og við skorum markið á svipaðan hátt. Þetta var lokaður leikur, og svona fór þetta á endanum," sagði Þorlákur.
Þorlákur var ekki ánægður með frammistöðu Gunnars Odds dómara leiksins.
„Það var bara ótrúlega mikið af atvikum sem við vorum ósáttir við dómara leiksins í dag. Það voru tveir leikmenn hjá FH sem brutu af sér og áttu alveg skilið að fá annað gult spjald. Það var ekki nema nokkrum mínútum seinna sem hann rekur annan af þeim út af, og Heimir hafði vit á að taka hinn strax út af eftir gróft brot á Mattias Edeland. Svo fá þeir tvöfaldan séns í lokin, hann dæmir brot, þeir fá sókn, Bragi gefur fyrir og þeir eru í dauðafæri, þeir klúðra því. Þá dæmir hann aukaspyrnuna, þannig það er bara fullt af hlutum sem við vorum ósáttir við dómgæsluna í dag," sagði Þorlákur.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.