Eddie Howe þjálfari Newcastle var stoltur af frammistöðu sinna manna þrátt fyrir afar naumt tap gegn Englandsmeisturum Liverpool er liðin mættust fyrr í kvöld.
25.08.2025 21:06
England: Ngumoha hetjan eftir ótrúlega dramatík í Newcastle
Newcastle spilaði allan síðari hálfleikinn manni færri en átti þrátt fyrir það frábæran leik þar sem sigurmarkið leit ekki dagsins ljós fyrr en á 100. mínútu. Tíu leikmenn Newcastle náðu að vinna upp tveggja marka forystu Liverpool áður en þeir töpuðu loks einvíginu seint í uppbótartíma.
„Strákarnir sýndu stórkostlega frammistöðu bæði í fyrri og seinni hálfleik og voru óheppnir að tapa. Við stjórnuðum leiknum í fyrri hálfleik en það vantaði bara að skora mark. Svo tókst okkur að klífa fjall í síðari hálfleiknum þegar við vorum einum manni færri og tveimur mörkum undir," sagði Howe.
„Við stjórnuðum leiknum en náðum samt ekki í stig. Það er mjög erfitt að spila fótboltaleik einum leikmanni færri, hvað þá gegn jafn gæðamiklu liði og Liverpool. Þeir skoruðu úr nánast hverju einasta færi sem þeir sköpuðu í þessum leik. Við erum ósáttir með hvernig við vörðumst í báðum mörkunum þeirra í seinni hálfleik.
„Þegar allt kemur til alls er þetta slæmur dagur fyrir okkur þrátt fyrir góða frammistöðu. Við förum úr þessum leik með ekki neitt nema meiðsli, leikbann og heilahristing."
Anthony Gordon er í leikbanni eftir að hafa fengið beint rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks og þá fóru Sandro Tonali og Joelinton meiddir af velli. Fabian Schär fékk þá heilahristing.
„Sandro og Joe fundu fyrir sársauka þegar þeir komu af velli. Það verður afar mikill missir fyrir okkur ef þeir geta ekki tekið þátt í næstu leikjum. Svo verður Anthony í leikbanni og Fabian fékk heilahristing. Þetta er ekki gott.
„Anthony verðskuldaði rauða spjaldið þó að þetta hafi ekki verið viljaverk. Hann var að reyna að hætta við tæklinguna en var of seinn að því og þess vegna fór þetta svona illa. Þetta var óviljaverk."
25.08.2025 20:05
Sjáðu atvikið: Gordon fékk beint rautt gegn Liverpool
Athugasemdir