Gera lokatilraun til að lokka Bruno Fernandes - Höjlund til Napoli - Rodgers aftur í úrvalsdeildina?
banner
   sun 24. ágúst 2025 14:00
Brynjar Ingi Erluson
Óráðið hvort Ekitike verði með gegn Íslandi
Mynd: EPA
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann ætli að velja Hugo Ekitike í hópinn fyrir leikina gegn Úkraínu og Íslandi í undankeppni HM.

Ekitike hefur farið frábærlega af stað með Liverpool á tímabilinu og skorað í fyrstu tveimur keppnisleikjum liðsins ásamt því að leggja upp mark.

Hann hefur ekki enn fengið kallið í franska A-landsliðið en það gæti komið á næstu dögum.

TF1 segir Deschamps vera að leggja lokahönd á hópinn sem verður kynntur á miðvikudag, en það kemur vel til greina að velja Ekitike.

Staða Randal Kolo Muani hjá Paris Saint-Germain hjálpar Ekitike, en Kolo Muani hefur ekki enn fundið sér nýtt félag og ekki spilað fyrstu tvo leiki PSG á tímabilinu.

Rayan Cherki, nýr leikmaður Manchester City, verður í hópnum en hann spilaði sína fyrstu A-landsleiki í sumar og tókst að skora í fyrsta leik sínum er Frakklandi tapaði fyrir Spánverjum, 5-4, í æsispennandi leik.

Frakkland mætir Úkraínu í Póllandi föstudaginn 5. september og fær síðan Ísland í heimsókn á Parc des Princes fjórum dögum síðar.
Athugasemdir
banner
banner