Gera lokatilraun til að lokka Bruno Fernandes - Höjlund til Napoli - Rodgers aftur í úrvalsdeildina?
   sun 24. ágúst 2025 13:18
Brynjar Ingi Erluson
Guðlaugur Victor riftir við Plymouth (Staðfest) - „Fór ekki alveg eins og ég hafði vonast til“
Guðlaugur Victor Pálsson
Guðlaugur Victor Pálsson
Mynd: Plymouth Argyle
Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur rift samningi sínum við enska félagið Plymouth Argyle, en hann er á leið til danska félagsins Horsens. Hann kveður Plymouth á heimasíðu félagsins í dag.

Guðlaugur Victor kom til Plymouth frá Eupen á síðasta ári, en hann var fenginn af Wayne Rooney sem hætti síðan með liðið í lok árs eftir slaka frammistöðu.

Plymouth féll niður í C-deildina í lok tímabils og þá hefur nýtt tímabil ekki farið af stað eins og menn hefðu vonast eftir.

Varnarmaðurinn var ekki í hópnum hjá Plymouth um helgina, en hann fór til Danmerkur til að ganga frá félagaskiptum sínum til Horsens sem leikur í B-deildinni.

Bold segir Guðlaug hafa skrifað undir tveggja ára samning og verða skiptin líklegast tilkynnt í dag.

Guðlaugur, sem er 34 ára gamall, kveður Plymouth og þakkar stuðningsmönnum fyrir stuðninginn, en minnir þá sömuleiðis á að hann sé bara manneskja sem er að gera sitt besta.

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir tíma minn hjá Plymouth og öllum þeim sem gáfu mér tækifærið til þess að spila aftur í enska boltanum. Þetta var stutt og fór ekki alveg eins og ég, og allir, vonuðust til, en ég er þakklátur fyrir tækifærið.“

„Ég óska félaginu, leikmönnum, þjálfarateyminu og öllum sem tengjast Plymouth alls hins besta í framtíðinni. Þá vil ég koma skilaboðum áleiðis til Græna hersins (stuðningsmannafélagi Plymouth): Við erum allir bara manneskjur að reyna okkar besta. Ykkar stuðningur hefur meiri þýðingu en þið gerið ykkur grein fyrir.

„Takk og gangi ykkur sem best í framtíðinni,“
sagði Guðlaugur í kveðju sinni á heimasíðu Plymouth.


Athugasemdir