„Þetta var æðislegt, bara kærkomið og eigum þetta bara svo sannarlega skilið,'' sagði kampakátur Birgir Baldvinsson, leikmaður KA, eftir 2-0 sigur á Fram í Bestu-deild karla í kvöld. Bakvörðurinn öflugi átti flottan leik í liði KA og skoraði fyrra mark leiksins með föstu skoti í fjærhornið. Mögulega fór boltinn í Jóan Símun Edmundsson, en við sjáum hvað setur!
Lestu um leikinn: KA 2 - 0 Fram
Hvernig sér markagráðugur Birgir stöðuna?
„Jújú, ef hann snertir hann þá er hann rangur - þannig að hann snerti hann ekkert! Þetta er bara mitt mark,'' sagði Birgir glottandi.
KA menn fóru inn í hálfleikinn með verðskuldaða 2-0 forystu og virtust aldrei líklegir til þess að láta hana af hendi, þrátt fyrir ágætis pressu Framara í seinni hálfleik.
„Mér leið bara vel, þrátt fyrir við höfum ekkert verið að taka alltof mikla sénsa og fara hátt upp að þá leið okkur vel að liggja bara niðri og fannst þeir í raun aldrei hættulegir með þessa bolta sko.''
Birgir lenti í talsverðum skakkaföllum í byrjun móts og í aðdraganda þess, en hefur vaxið ásmegin eftir því sem að liðið hefur á tímabilið.
„Já, ég sleit liðband í ökklanum og missti mikið af í byrjun og svo fékk ég COVID þar á milli og var lengi að ná mér eftir það líka. Þannig að núna er ég bara aftur kominn til baka og þetta er bara æðislegt fyrir mig og sjálfstraustið. Þetta er bara frábært,'' sagði Birgir Baldvinsson.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.