Greint var frá því á dögunum að Como hafnaði 70 milljón evru tilboði frá Tottenham í sóknartengiliðinn sinn Nico Paz.
Paz er afar eftirsóttur en Cesc Fábregas þjálfari Como er vongóður um að halda honum í sumar. Leikmaðurinn verður þó líklega seldur næsta sumar vegna endurkaupsákvæðis til Real Madrid í samningi hans. Ef Como selur Paz til annars félags rennur tæpur helmingur upphæðarinnar í kassa Real Madrid.
Paz kom að 15 mörkum í 35 deildarleikjum með Como á síðustu leiktíð og byrjaði nýtt tímabil á marki og stoðsendingu í 2-0 sigri gegn Lazio. Markið kom beint úr aukaspyrnu og var glæsilegt rétt eins og stoðsendingin sem var á heimsmælikvarða.
„Ég veit að hann er ánægður hérna," sagði Fábregas við Sky á Ítalíu eftir sigurinn gegn Lazio. „Þetta er mjög metnaðarfullur leikmaður sem vill spila í hæsta gæðaflokki."
Paz, sem verður 21 árs í september, svaraði einnig spurningum að leikslokum.
„Ég elska stuðningsmennina hérna, þeir hafa hjálpað mér mikið við að standa mig vel á vellinum. Ég finn fyrir miklu trausti frá þeim og ómetanlegum stuðningi. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta. Útaf þeim þá líður mér eins og ég sé heima hjá mér," sagði Paz.
25.08.2025 13:30
Geta fengið skotmark Tottenham á grínverði
Athugasemdir