Tottenham reynir við Savinho og Paz - Ensk stórlið vilja Rodrygo - Donnarumma með munnlegt samkomulag við City
   mán 25. ágúst 2025 22:47
Ívan Guðjón Baldursson
Slot fann fyrir miklum létti: Bjóst ekki við þessu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði spurningum eftir nauman sigur á útivelli gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld.

Liverpool komst í tveggja marka forystu og var einum manni fleiri á St. James' Park í Newcastle. Þrátt fyrir það tókst tíu heimamönnum að jafna leikinn í síðari hálfleik áður en hinn 16 ára gamli Rio Ngumoha kom inn af bekknum og gerði sigurmarkið á 100. mínútu.

   25.08.2025 21:06
England: Ngumoha hetjan eftir ótrúlega dramatík í Newcastle


„Ég finn fyrir miklum létti eftir lokaflautið. Við vorum 2-0 yfir gegn tíu leikmönnum en samt tókst þeim að jafna og það var líklega verðskuldað. Svo fengu þeir fleiri færi á lokamínútunum heldur en við. Þetta var rosalegur leikur og stemningin á áhorfendapöllunum var rafmögnuð. Þvílíku lætin í áhorfendum, vá!" sagði Slot.

„Það er mikill léttir að strákarnir hafi fundið leið til að sigra í dag. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið alvöru fótboltaleikur, það var svo mikið af föstum leikatriðum og innköstum. Við gerðum mjög vel í að berjast um hvern einasta bolta gegn stórum og sterkum andstæðingum. Við vorum ekki nægilega góðir á boltanum en boltinn var voðalega lítið í leik svo það reyndist erfitt að ná upp einhverjum takti.

„Rio skoraði frábært mark, hann er ótrúlega góður að klára færi miðað við hvað hann er ungur. Hann tók ekki einu sinni snertingu á boltann heldur kláraði bara viðstöðulaust! Hann er með mjög mikið sjálfstraust, hann er ekki hræddur við að spila fyrir aðalliðið."


Slot var þó ekki sérlega ánægður með varnarleik sinna manna og var einnig spurður út í annað mark leiksins sem Hugo Ekitike skoraði eftir 20 sekúndur af seinni hálfleiknum. Slot sá ekki markið þar sem hann var ennþá á leiðinni frá leikmannagöngunum.

„Ef við viljum berjast um titilinn þá verðum við að laga varnarleikinn og byrja að halda hreinu. Við erum að fá alltof mörg mörk á okkur, en sem betur fer þá erum við líka að skora mjög mikið.

„Ég bjóst ekki við þessu, ég held að þetta hafi aldrei gerst fyrir mig áður. Ekkert lið sem ég hef þjálfað hefur verið svona snöggt að skora. Ég var bara að labba í gegnum göngin þegar ég heyrði aðstoðarþjálfarann kalla að við værum búnir að skora annað mark."


Slot var að lokum spurður út í Alexander Isak sem gæti verið á leið til Liverpool á næstu dögum fyrir metfé.

„Við ættum frekar að tala um leik kvöldsins og þá staðreynd að Hugo Ekitike er búinn að skora þrjá leiki í röð. Þetta er hvorki staður né stund til að tala um aðra leikmenn."
Athugasemdir
banner
banner