KR fékk Stjörnuna í heimsókn á Meistaravöllum fyrr í kvöld. Leikar enduðu með 1-2 tapi KR, þar sem Örvar Eggertsson skoraði sigurmark Stjörnunnar undir lok leiks. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: KR 1 - 2 Stjarnan
„Ég met þetta sem svo að það var eitt lið á vellinum. Annað liðið skokkaði tvisvar sinnum upp í hornspyrnur og skoraði. Við fengum fjöldann allan af tækifærum til að skora, við áttum að vinna þennan leik. Ég er hrikalega stoltur af frammistöðu liðsins, en ég á aðeins eftir að jafna mig á úrslitunum.“
„Við erum að spila við lið sem er búið að fara með himinskautum í síðustu leikjum og þeir eru nánast áhorfendur í 90 mínútur, við þurfum bara að taka það með okkur.“
KR er í 10. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá falli. Óskar Hrafn segir þó ekki hafa áhyggjur.
„Við erum með stjórn á okkar eigin örlögum, meðan við erum með stjórn á okkar eigin örlögum þá ætla ég að leyfa þér og öðrum að hafa áhyggjur af okkur, en ég ætla ekki að hafa þær.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir