Tottenham reynir við Savinho og Paz - Ensk stórlið vilja Rodrygo - Donnarumma með munnlegt samkomulag við City
   mán 25. ágúst 2025 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjög stoltur af Guy - „Ísland er mitt annað heimili"
Vladan og Guy Smit.
Vladan og Guy Smit.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Guy var besti maður vallarins í bikarúrslitaleiknum.
Guy var besti maður vallarins í bikarúrslitaleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Davíð Smári og Vladan.
Davíð Smári og Vladan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri varð bikarmeistari síðasta föstudag.
Vestri varð bikarmeistari síðasta föstudag.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Vestri mun leika í Evrópu næsta sumar.
Vestri mun leika í Evrópu næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er ótrúleg tilfinning," segir Vladan Djogatovic, markmannsþjálfari Vestra, í samtali við Fótbolta.net. Vestri varð síðastliðið föstudagskvöld bikarmeistari í fyrsta sinn eftir sigur á Val í úrslitaleik.

Besti maður úrslitaleiksins var Hollendingurinn Guy Smit sem stóð vaktina stórkostlega í markinu hjá Vestra.

„Þetta var fyrsti bikarúrslitaleikurinn í sögu Vestra og fyrsti stóri bikarinn, sem gerir þetta rosalega sérstakt fyrir alla hjá félaginu. Að vinna gegn Val, einu stærsta félagi Íslands, gerir þetta enn stærra. Ég er stoltur að vera hluti af þessari sögu," segir Vladan.

Kom hingað mjög hungraður
Guy gekk í raðir Vestra fyrir tímabilið eftir nokkuð erfiðan tíma hjá Val og KR þar sem styrkleikar hans voru ekki hafðir í fyrirrúmi. Hjá Vestra hefur hann blómstrað í sumar.

„Guy kom hingað mjög hungraður," segir Vladan. „Síðustu ár voru erfið fyrir hann samanborið við þann tíma sem hann átti með Leikni. Við vildum finna það aftur hjá honum. Í ár höfum við fókusað mikið á fótavinnuna, staðsetningar og viðbrögð. Þegar markvörður eins og Guy staðsetur sig vel og bregst hratt við, þá getur hann varið eins og berserkur en við sáum það í úrslitaleiknum," segir Vladan.

„Ég sé hversu mikið hann leggur á sig á hverjum degi og ég er mjög stoltur af honum."

Vladan segir að það hafi verið mjög jákvæð reynsla að vinna með Guy í sumar.

„Það hefur verið mjög jákvæð reynsla. Guy hefur ýtt mikið á sig og á sama tíma er hann með mikla samkeppni frá Benjamin Shubert. Þeir ýta hvor öðrum áfram á hverjum degiá æfingu og ég er mjög ánægður með það samband sem þeir hafa byggt upp. Fyrir mig sem þjálfara er mikilvægt að vera með heilbrigða samkeppni og ég er stoltur af báðum mínum markvörðum."

Davíð vildi þrisvar fá hann sem leikmann
Vladan hefur starfað sem markvarðarþjálfari Vestra frá því í lok árs 2023. Áður var hann markvörður Grindavíkur, KA og Magna Grenivíkur.

„Þetta hefur verið frábært," segir Vladan um vinnuna hjá Vestra. „Þetta er annað tímabilið mitt hjá félaginu og að sjá Vestra vaxa skref fyrir skref í það að vinna sinn fyrsta bikar hefur verið mjög sérstakt. Það er mikil fjölskyldustemning hjá félaginu og ég er stoltur að vera hluti af því."

Hann nýtur þess mikið að vinna með Davíð Smára Lamude, þjálfara liðsins.

„Já, alveg mjög mikið. Davíð vildi þrisvar fá mig sem leikmann í Kórdrengi svo það var bara tímaspursmál hvenær við myndum vinna saman. Núna vinnum við sem sterkt teymi og erum líka bestu vinir sem hjálpar varðandi traust og að taka ákvarðanir. Davíð er þjálfari með skýrar hugmyndir um það hvernig hann vill spila, hann er agaður og skipulagður. Traustið er mikilvægast. Ég vil líka minnast á Vigni Snæ Stefánsson sem er ungur og mjög spennandi þjálfari, og bara frábær manneskja. Ferran er líka besti sjúkraþjálfarinn á Íslandi að mínu mati. Saman vinnum við sem ein heild, ein fjölskylda," segir Vladan.

Mitt annað heimili
Vladan, sem er frá Serbíu, hefur verið á Íslandi síðan 2019 og lítur á landið sem sitt annað heimili.

„Ísland er mitt annað heimili. Fólkið tekur alltaf vel á móti þér og fótboltinn er skemmtilegur og vel skipulagður. Ég kom fyrst hingað sem leikmaður og er núna að vinna hér sem þjálfari, og ég er mjög ánægður að vera hér áfram í þessari fótboltamenningu."

„Vestri er á leið í Evrópu á næsta tímabili og það er magnað. Frá því að spila okkar fyrsta bikarúrslitaleik í það að fara í Evrópu, það er sögulegt fyrir félagið. Það verður líka að hrósa Samma, Nonna, stjórnarfólki og öllum í kringum félagið. Þau eru að vinna magnað starf við að reyna að ýta Vestra eins hátt og mögulegt er. Að spila í Evrópu er mikil hvatning fyrir okkur öll," sagði Vladan að lokum.
Athugasemdir
banner
banner