Solskjær, Alonso, Tel, Reijnders, Kimmich, Zaniolo, Watkins og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
banner
   þri 26. september 2023 21:48
Brynjar Ingi Erluson
Spánn: Samba-bolti í Seville - Barcelona missteig sig á Mallorca
Dodi Lukebakio skoraði stórbrotið mark
Dodi Lukebakio skoraði stórbrotið mark
Mynd: Getty Images
Fermin Lopez bjargaði stigi fyrir Börsunga
Fermin Lopez bjargaði stigi fyrir Börsunga
Mynd: Getty Images
Leikmenn Sevilla voru í banastuði í 5-1 sigri liðsins á Almería í La Liga á Spáni í kvöld á meðan topplið Barcelona missteig sig í 2-2 jafnteflinu gegn Real Mallorca.

Sevilla fékk draumabyrjun strax á 7. mínútu. Loic Bade þrumuskallaði boltanum í þverslá, aftur út í teiginn á Youssef En-Nesyri sem setti boltann í netið.

Tæpri mínútu síðar skoraði Dodi Lukebakio stórbrotið mark. Hann tók tvær gabbhreyfingar sem plötuðu varnarmenn Almería upp úr skónum áður en hann þrumaði boltanum efst í vinstra hornið.

Spænski vængmaðurinn Suso var næstur í röðinni. Hann var með boltann hægra megin við teiginn, setti hann yfir á vinstri áður en hann skaut honum hnitmiðað í vinstra hornið.

Erik Lamela gerði fjórða markið eftir góða sókn áður en Luis Suarez minnkaði muninn með marki úr víti tuttugu mínútum síðar.

Kike Salas rak síðasta naglann í kistu Almería með laglegu marki í lokin. Í raun ótrúlegt að mörkin hafi ekki verið fleiri, en þetta var aðeins annar sigur Sevilla á tímabilinu sem er með 7 stig í 11. sæti.

Barcelona gerði á meðan 2-2 jafntefli við Mallorca. Vedat Muriqi nýtti sér slaka sendingu Marc-andre ter Stegen á 8. mínútu og kom heimamönnum í Mallorca í forystu.

Það var ekki fyrr en á 40. mínútu sem Barcelona fékk fyrsta marktækifærið og þurfti ekki meira til. Fast skot Raphinha hafnaði þá neðst í vinstra horninu.

Raphinha kom sér í dauðafæri stuttu síðar en skaut yfir þegar hann var kominn einn á einn á móti markverði. Mallorca refsaði fyrir það undir lok hálfleiksins er Abdon Prats skoraði eftir sendingu Muriqi.

Barcelona sótti án afláts í þeim síðari. Joao Felix átti stangarskot af löngu færi áður en hinn 20 ára gamli Fermin Lopez gerði sitt fyrsta mark fyrir Börsunga og bjargaði um leið stigi fyrir gestina.

SIgurhrinu Barcelona er því lokið en liðið hafði unnið fyrstu sex deildarleiki sína fram að leiknum í kvöld. Börsungar eru þó áfram á toppnum með 17 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Sevilla 5 - 1 Almeria
1-0 Youssef En-Nesyri ('7 )
2-0 Dodi Lukebakio ('8 )
3-0 Suso ('38 )
4-0 Erik Lamela ('51 )
4-1 Luis Suarez ('71 , víti)
5-1 Kike Salas ('90 )

Mallorca 2 - 2 Barcelona
1-0 Vedat Muriqi ('8 )
1-1 Raphinha ('41 )
2-1 Abdon Prats ('45 )
2-2 Fermin Lopez Marin ('75 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner