Örvar Eggertsson hefur farið himinskautum með Stjörnunni á nýliðnu tímabili. Alls skoraði hann fjórtán mörk fyrir Garðbæinga í Bestu deildinni og hann var í markaskónum í dag þegar Stjarnan tryggði sér Evrópusæti í leik gegn Breiðabliki. Örvar var fámáll en ánægður í viðtali að leik loknum.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 3 Breiðablik
„Frábært, þetta var geggjað. Þetta var skemmtilegur leikur heilt yfir en smá 'kaos' í leikinn.“
Stjarnan var í þeirri stöðu fyrir leik að liðið mætti tapa með einu marki til þess að tryggja Evrópusætið.
„Það er mjög óþægilegt. Það sást ekki á liðinu í fyrri en það sást aðeins í seinni að menn voru farnir að falla dálítið mikið til baka.“
Örvar skoraði fjórtán mörk á tímabilinu en þar áður hafði hann skorað mest sjö mörk á heilu tímabili, helmingi minna en í ár.
„Ég var óheppinn, ég átti að skora meira.“
Ánægðir með tímabilið í heild sinni?
„Markmiðið var sett á Evrópu og hingað erum við komnir í dag.“























