Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 26. nóvember 2025 21:37
Snæbjört Pálsdóttir
Stórleikur á Laugardalsvelli: Föðurlandið, dúnúlpan og aðdáendaklúbbur Luigi
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði og Ólafur Ingi Skúlason þjálfari Breiðabliks
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði og Ólafur Ingi Skúlason þjálfari Breiðabliks
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Thomas Reis þjálfari og Logi Tómasson leikmaður Samsunspor
Thomas Reis þjálfari og Logi Tómasson leikmaður Samsunspor
Mynd: Snæbjört Pálsdóttir

Breiðablik tekur á móti tyrkneska liðinu Samsunspor á Laugardalsvelli annað kvöld klukkan 20:00 í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þetta er fjórði leikur liðanna í deildarkeppninni og er nokkur munur á liðunum fyrir leikinn. 

Breiðablik hefur markatöluna 0:5 og situr í neðri hluta töflunnar. Liðið tapaði bæði gegn Lausanne-Sport og Shakhtar Donetsk en gerði svo 0-0 jafntefli við finnska liðið KuPs.

Samsunspor hins vegar sitja í efsta sæti töflunnar, hafa unnið alla sína þrjá leiki og hafa markatöluna 7:0.

Blaðamannafundur beggja liða var nú í kvöld og sátu fyrir svörum fyrir hönd Breiðabliks, þjálfarinn Ólafur Ingi Skúlason og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson og fyrir Samsunpor, þjálfarinn Tomas Reis og íslenski landsliðsmaðurinn Logi Tómasson. Er hér samantekt á því helsta sem fram kom þar.


Lestu um leikinn: Breiðablik 0 -  0

Breiðablik:

Breiðabliksmenn voru einbeittir og yfirvegaðir á blaðamannafundinum í kvöld. Þjálfarinn Ólafur Ingi Skúlason og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson lögðu báðir áherslu á að liðið væri vel undirbúið fyrir leikinn, bæði taktískt og andlega, og að markmiðið væri skýrt: að sækja úrslit á heimavelli.

Ólafur Ingi Skúlason þjálfari Breiðabliks:

Ólafur fór ítarlega yfir það sem liðið hefur unnið með í aðdraganda leiksins, og hvernig Blikar hyggjast bregðast við öflugu lið Samsunspor.

„Við erum ekkert að fara að gera þetta öðruvísi, en við þurfum að halda fókus alveg út 90 mínúturnar.“

„Við höfum verið að skoða vel hvaða lausnir við getum fundið í þeirra varnarlínu.“

Hann lagði mikla áherslu á beinskeyttan, árásargjarnan leik þegar færi gefast:

„Við þurfum að finna svona moment þar sem við þurfum að vera direct á köflum og nýta okkur svæðið sem við getum unnið okkur upp völlinn. Við viljum virkilega brjótast í gegn og komast inn á síðasta þriðjung með afgerandi hætti.“

Ólafur sagði að liðið hefði unnið markvisst í sóknarleiknum:

„Við þurfum að fá góðar fyrirgjafir og bakvið það. Það er eitthvað sem við höfum unnið í á æfingum og sem strákarnir hafa tekið mjög vel.“

Að lokum var Ólafur spurður út í sinn fyrsta mánuð í starfi. Hann sagðist hafa fengið mjög góðar viðtökur:

„Kúltúrinn hjá leikmönnunum og inn í liðinu er mjög góður. Þetta er eitthvað sem við viljum passa upp á og vernda. Það skiptir gríðarlega miklu máli.“

Höskuldur Gunnlaugsson: fyrirliði Breiðabliks: 

Var spurður út í Loga og hvernig yrði að mæta honum: 

„Ég dáist að honum bæði sem manneskju og leikmanni. Ég hef spilað gegn honum ótal sinnum og einnig spilað með honum svo það verður bara extra gaman að taka á móti honum." 

Hann var spenntur fyrir leiknum á morgunn: 

„Ég er mjög spenntur fyrir leiknum á morgun, þetta er frábært lið sem er að gera það gott bæði í þessari deild og tyrknesku deildinni og það verður gaman að mæta þeim hér á okkar heimavelli." 

Skilaboð Höskuldar til stuðningsmanna og fótboltaáhugamanna eru skýr: 

„Bara taka föðurlandið og dúnúlpuna út og skella sér á völlinn! Njóta þess að hér sé hægt að spila við toppaðstæður svona seint í nóvember. Við eigum lið á þessu kaliberi, á þessum stað á þessum árstíma. Þannig að bara fótboltaáhugamenn og aðdáendur á Íslandi skella sér á völlinn!"

Samsunspor:

Samsunspor-menn voru í afslöppuðum en ákveðnum gír á blaðamannafundi fyrir stórleikinn á Laugardalsvelli í Sambandsdeildinni á morgunn. Báðir lögðu þeir áherslu á að frammistaða liðsins hingað til í riðlinum sé til marks um styrk liðsins og skipulag. 

Logi Tómasson leikmaður Samsunspor:

Lagði áherslu á að liðið væri í frábæru formi fyrir leikinn og að gæðin hefðu skilað sér vel í Sambandsdeildinni.

„Við höfum ekki fengið á okkur mark í þeim þremur leikjum sem við höfum spilað í Sambandsdeildinni hingað til,“ 

„Við förum inn í hvern einasta leik til að vinna. Þetta hefur verið ein af okkar bestu frammistöðum á tímabilinu.“

Hann sagði jafnframt að hann nyti þess að spila með liðinu og að árangurinn væri stór hluti af þeirri upplifun.

„Þetta er sérstakt fyrir mig persónulega að fá að spila gegn íslensku liði í Evrópukeppni. Ég var mjög ánægður þegar ég sá að við yrðum dregnir á móti þeim.“

„Ég þekki þessa leikmenn mjög vel – bæði á vellinum og utan hans. En þetta snýst ekki um mig, heldur liðið og það að við vinnum leikinn.“

Aðspurður um hvort "Luigi fan club" væri væntanlegur í stúkuna á morgunn svaraði Logi: 

 „Þetta er góð spurning, Fjölskyldan mín verður á vellinum, og líka nánir vinir mínir. Ég veit ekki hvort vinir mínir úr tónlistinni eða tónlistaraðdáendur mæta, en fjölskyldan mín og bestu vinirnir ætla að koma. Það er alveg sérstök tilfinning að fá að spila með fjölskylduna í stúkunni."

Thomas Reis þjálfari Samsunspor:

Lagði áherslu á að íslenska liðið væri mun erfiðara en margir gerðu sér grein fyrir.

„Þeir eru sterkir og grimmir í að berjast. Við þurfum að vera vel undirbúnir fyrir það.“

Hann varaði einnig við að mæta of kærulaus:

„Ef við mætum í þetta á 80% þá lendum við í stórum vandræðum.“

„Það er vel þekkt að aðstæðurnar hér geta verið erfiðar, kuldi og völlurinn. Við verðum að vera mjög einbeittir.“

Þegar þjálfarinn var spurður út í pressuna sem fylgir því að vera í toppsæti sagði hann:

„Þegar þú heldur áfram að vinna og tapar ekki leikjum, þá hækka væntingarnar hratt, sérstaklega í Tyrklandi. En þetta er jákvætt. Við njótum þess að vera í þessari stöðu.“

„Fyrir mig er þetta engin pressa  og ekki heldur fyrir leikmennina."

Frekari viðtöl við Ólaf Inga Skúlason, Höskuld Gunnlaugsson og Loga Tómasson koma inn síðar í kvöld. 


Athugasemdir
banner
banner