Það var stutt í gamanið hjá FH-ingum fyrr í kvöld er þeir tilkynntu ráðninguna á Jóhannesi Karli Guðjónssyni sem nýjum þjálfara liðsins.
Ráðningin hafði verið eitt verst geymda leyndarmál íslensks fótbolta en vegna mála Jóa Kalla út í Danmörku þurfti félagið að bíða með tilkynninguna í tæpa tvo mánuði. Eftirvæntingin var því mikil þegar loks átti að tilkynna ráðninguna.
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, kynnti inn nýjan þjálfara sem átti að ganga inn í salinn hulinn frá toppi til táar. Þegar maðurinn steig á svið og svipti lakinu af sér blasti þó ekki Jóhannes Karl við gestum heldur enginn annar en Logi Ólafsson.
Logi var léttur þegar hann tók til máls og sagði að hann sæi vonbrigðarsvip á gestum. Hann sagði jafnframt að á löngum ferli sínum hafi hann aldrei verið jafn stutt í starfi, þar sem hann sagði upp störfum. Logi tilkynnti þá um leið Jóhannes Karl Guðjónsson sem nýjan þjálfara liðsins sem gekk þá inn við mikið lófatak.
Myndband af innkomu Loga má sjá í spilaranum hér að ofan.























