Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 26. nóvember 2025 15:00
Elvar Geir Magnússon
„Er með ástríðu fyrir verkefninu og vill að þjóðin sé með sér“
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: EPA
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eftir að hafa fengið nokkuð mikla, og að margra mati ósanngjarna, gagnrýni þá stýrði Heimir Hallgrímsson írska landsliðinu til tveggja frækinna sigra í síðustu leikjunum í undankeppni HM.

Sigrar gegn Portúgal og Ungverjalandi gerðu að verkum að Írland náði öðru sæti riðilsins og er á leið í umspil um sæti á HM. Liðið skoraði sigurmarkið gegn Ungverjum á hádramatískan hátt í uppbótartíma.

„Ég og sonur minn horfðum á seinustu fimmán og gjörsamlega trylltumst þegar þeir skoruðu sigurmarkið. Þetta var geggjað," segir Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Það kom mér á óvart hvað ég var glaður. Ég veit að hann skiptir mig miklu máli og mér þykir vænt um hann en ég var gjörsamlega í losti. Ég nánast táraðist. Þetta skiptir miklu máli."

Freyr var aðstoðarmaður Heimis hjá Al-Arabi í Katar á sínum tíma.

„Ég heyrði aðeins í honum eftir Portúgalsleikinn og minntist á það hversu góður hann er í 'crunch time' (þegar allt er undir). Hann er snillingur í því."

Freyr talar um að það skipti Heimi miklu máli að írska landsliðið fái stuðning írsku þjóðarinnar.

„Ég hef lært mikið af honum og fengið innblástur frá honum. Hann er í sporum sem ég hef ekki verið í. Hann þarf ekki þetta starf, hann getur farið að vinna á skrifstofunni í Vestmannaeyjum og fjárhagslega er hann ekki bundinn einu né neinu. Það er ótrúlega góð staða fyrir þjálfara að vera í, hann skrifar ekki undir samning fyrir peningana. Hann er með ástríðu fyrir verkefninu og vill að sambandið og þjóðin séu með sér í því," segir Freyr.

Í lok viðtalsins var minnst á að þegar allt sprakk út af fögnuði í sigurmarki Íra gegn Ungverjum hafi Heimir bent mönnum á að halda haus. Það væri ekki búið að flauta af.

„Hann lærði þetta af Lars Lagerback, þetta voru Lars Lagerback viðbrögð," segir Freyr og hlær.
Útvarpsþátturinn - Einkunnir Íslands og hringt út
Athugasemdir
banner