Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 27. janúar 2021 19:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Markalaust í fyrsta leik Tuchel - Magnaður sigur Burnley
Tuchel á hliðarlínunni í kvöld.
Tuchel á hliðarlínunni í kvöld.
Mynd: Getty Images
Burnley vann mjög flottan sigur.
Burnley vann mjög flottan sigur.
Mynd: Getty Images
Chelsea náði ekki að brjóta Wolves á bak aftur í fyrsta leik Thomas Tuchel við stjórnvölinn. Á sama tíma fór fram magnaður fótboltaleikur á Turf Moor í Burnley.

Chelsea var sterkari aðilinn í leiknum en Úlfarnir voru skipulagðir og vörðust vel.

Chelsea var tæplega 80 prósent með boltann en náði ekki að skapa sér mikið af færum. Wolves hefði getað stolið sigrinum. Pedro Neto átti tilraun sem fór í slána og yfir í seinni hálfleiknum. Kai Havertz fékk svo mjög gott færi til að tryggja sigurinn fyrir Chelsea undir lokin, en Úlfarnir björguðu á línu. Það voru engin mörk skoruð í leiknum og lokatölur 0-0.

Chelsea er í áttunda sæti með 30 stig eftir 20 leiki. Úlfarnir eru í 13. sæti með 23 stig.

Meira fjör á Turf Moor
Það var spilað á sama tíma á Turf Moor í Burnley þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi. Aston Villa-menn fara mjög svekktir heim eftir þennan leik.

Ollie Watkins kom Aston Villa yfir á 14. mínútu eftir fyrirgjöf frá Matt Targett. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir gestina í Villa en snemma í seinni hálfleiknum jafnaði varnarmaðurinn Ben Mee fyrir heimamenn.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á eftir klukkutíma leik og stuttu eftir það skoraði Jack Grealish fyrir Villa eftir flott spil. En svo breyttist leikurinn skyndilega.

Dwight McNeil jafnaði fyrir Burnley með skoti sem átti líklega að vera fyrirgjöf. Einhvern veginn fór boltinn fram hjá Emiliano Martinez sem hefur átt mjög fínt tímabil í marki Villa. Jöfnunarmarkið kom á 76. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Chris Wood eftir sendingu frá McNeil.

Það reyndist sigurmarkið í þessum leik. Frábær sigur fyrir Burnley en Villa átti 18 skot og var 62 prósent með boltann í leiknum. Burnley átti tíu skot. Villa er í tíunda sæti með 29 stig eftir 18 leiki. Burnley er í 15. sæti með 22 stig.

Chelsea 0 - 0 Wolves

Burnley 3 - 2 Aston Villa
0-1 Ollie Watkins ('14 )
1-1 Ben Mee ('52 )
1-2 Jack Grealish ('68 )
2-2 Dwight McNeil ('76 )
3-2 Chris Wood ('79 )

Klukkan 20:15 hefjast tveir síðustu leikir dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Smelltu hér til að sjá byrjunarliðin fyrir þessa leiki.
Athugasemdir
banner
banner
banner