Bruno íhugar sína stöðu á Old Trafford - Kane ræðir við Bayern um framlengingu - Beto á blaði Juve
   þri 27. janúar 2026 16:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Segir FH fá 25 milljónir - „Frábært að hann sé að fá þessi verðlaun"
'Þetta er sala sem við erum sáttir með'
'Þetta er sala sem við erum sáttir með'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði 16 mörk síðasta sumar.
Skoraði 16 mörk síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Úlfur Ágúst útskrifast frá Duke um áramótin.
Úlfur Ágúst útskrifast frá Duke um áramótin.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigurður Bjartur Hallsson var í dag kynntur sem nýr leikmaður AD Merida í spænsku C-deildinni. Framherjinn skoraði 16 mörk fyrir FH í Bestu deildinni á síðasta tímabili og endaði sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

FH-ingurinn Sigurður Bond sagði frá því í Dr. Football í dag að FH fái um 25 milljónir króna fyrir Sigurð og samkvæmt því sem Fótbolti.net kemst næst er það ekki fjarri lagi.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, um Sigurð.

„Hann stóð sig frábærlega hjá okkur og við munum sakna hans. Þetta er flottur tímapunktur fyrir hann að fara út og ég held þetta sé alveg ágætlega spennandi verkefni að fara í," segir Davíð.

„Maður er bundinn trúnaði og ég vil því ekki tjá mig um verðmiðann. Þetta er sala sem við erum sáttir með. Eins og alltaf þá vill maður alltaf fá meira, og alveg eins vildu þeir borga minna. Svo hittumst við einhvers staðar á miðri leið."

„Hann vann svo sannarlega fyrir þessu. Hann kom hérna 2024, spilaði mikið og skoraði átta mörk það tímabilið. Maður horfði í það að hann hefði getað skorað meira í ljósi þeirra færa sem hann fékk þá. Hann var frábær í því að hlaupa og berjast fyrir liðið og seinni hlutann á síðasta tímabili þá datt þetta heldur betur fyrir hann. Frábært að hann sé að fá þessi verðlaun - uppskera svona."


Líta i kringum sig varðandi framherjastöðuna
Þýðir þetta að FH þarf að fá inn framherja, eða var Adolf Daði Birgisson fenginn frá Stjörnunni sem slíkur?

„Við hugsum Adolf Daða meira úti á vængnum. Við erum að líta í kringum okkur með framherjastöðuna og sjá hvort við finnum eitthvað sem okkur finnst spennandi .Það getur vel verið að það komi inn annar framherji, en það getur líka vel verið að við vinnum með það sem við erum með."

FH er með framherjana Úlf Ágúst Björnsson og Kristján Flóka Finnbogason á samningi og Dagur Traustason er samningslaus.

„Úlfur klárar námið í Bandaríkjunum um áramótin, kemur til okkar í apríl og spilar því um hálft mótið eins og síðustu tvö ár. Hann hjálpar okkur þann tíma sem hann verður. En það að hann klári ekki tímabilið gerir það að verkum að okkur líður ekki alveg eins þægilega og ef hann yrði með allt tímabilið. Dagur er úti í Bandaríkjunum og er að skoða sín mál."

„Framherjaleitin er komin ágætlega af stað en það er ekki þannig að það sé eitthvað eitt nafn líklegra en annað. Við skoðum þá möguleika sem eru í boði, hvað við teljum að henti okkur og hvort það sé mögulegt að sækja það sem hentar okkar,"
segir Davíð.

Áttu von á því að fleiri leikmenn gætu verið seldir út í vetur?

„Maður veit aldrei. Við erum með leikmenn sem voru mjög flottir í fyrra og hafa vakið athygli, sem dæmi Kjartan Kára, Baldur Kára og Tómas Orra. En mér finnst ekkert endilega líklegt að það gerist eitthvað hjá þeim í þessum glugga. Evrópuglugginn lokar fljótlega en Skandinavíuglugginn er opinn aðeins lengur þannig maður veit aldrei. Ég vonast til þess að það verði ekkert mikið meiri breytingar hjá okkur í ár."
Athugasemdir
banner