Sóknarmaðurinn Hrjove Tokic var á skotskónum fyrir Ægi gegn sínum gömlu félögum í Selfossi í Lengjudeildinni í gær. Tokic skoraði ansi athyglisvert mark þegar hann jafnaði metin eftir um 13 mínútna leik.
Lestu um leikinn: Ægir 1 - 3 Selfoss
Það var mikill vindur í Þorlákshöfn á meðan leik stóð en Tokic nýtti sér vindinn þegar hann skoraði. Hægt er að sjá myndband af markinu hér fyrir neðan.
Þetta er fyrsta markið sem Tokic gerir fyrir Ægi en Nenad Zivanovic, þjálfari liðsins, var ánægður með sóknarmanninn sinn eftir leik. „Þetta var frábært mark. Ég er ekki viss um að margir leikmenn geti skorað svona mark. Við sömdum við hann til að vera aðalsóknarmaður okkar og ég vona að hann komist á skrið."
Gary Martin, sóknarmaður Selfoss, hrósaði Tokic líka eftir leik en þeir spiluðu saman í Selfossi 2021 og 2022.
„Hann var alltaf að fara að skora. Þetta var góð afgreiðsla," sagði Gary. „Gæði hans eru ótrúleg. Það eru ekki margir leikmenn sem ég myndi spila á miðjunni fyrir, en hann er einn af þeim. Að mínu mati á hann að vera að spila í efstu deild. Kannski líður honum vel í þessari deild, ég veit það ekki. Ég mun alltaf bera virðingu fyrir honum sem fótboltamanni."
Ægismenn eru með eitt stig eftir fjóra leiki í Lengjudeildinni, en þeir þurfa að treysta á fleiri mörk frá Tokic ef þeir ætla að halda sér uppi.
Hægt er að sjá myndband af marki Tokic hér fyrir neðan.
Athugasemdir