
„Ég er ánægður. Að vinna loksins Val á keppnistímabilinu er stórt fyrir liðið," sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, eftir 2-1 endurkomusigur gegn Íslands- og bikarmeisturum Vals í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 1 Valur
„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna í seinni hálfleik, hvernig stelpurnar komu út og spiluðu eins vel og þær gátu."
Leikurinn byrjaði erfiðlega fyrir Þrótt og þær lentu snemma undir, en þær svöruðu frábærlega í seinni hálfleik. Hægt og bítandi fóru þær að ógna marki Vals meira og meira, og að lokum tókst þeim að koma boltanum í netið.
„Við vorum stressaðar á boltanum en töluðum um það í hálfleik að hafa sjálfstraust og gera betur. Við spiluðum mjög vel í seinni hálfleik með boltann."
Katla Tryggvadóttir, einn mikilvægasti leikmaður Þróttar sóknarlega, fór af velli meidd í lok fyrri hálfleiks. Var Nik áhyggjufullur þegar hún fór út af?
„Klárlega, vegna þess að hún er mikilvægur leikmaður fyrir okkur. En Ísabella kom inn á og var frábær. Í ár erum við líklega með besta lið sem ég hef nokkurn tímann verið með. Katla fór út af en Bella kemur inn og hún er frábær. Freyja kemur inn á og skorar. Sierra kemur líka inn á. Það er stórt að missa Kötlu en Bella kemur inn á og gerir virkilega vel. Katla meiðist þegar hún hleypur á eftir bolta en hún var rangstæð. Hún sneri upp á ökklann og við verðum að greina það á næstu dögum."
„Það er gott að fá inn varamenn sem gefa allt sitt og þær hafa haft mikil áhrif á leikina. Það er engin pirruð yfir spiltíma og þær koma inn á sýna hversu miklu máli þær skipta fyrir liðið."
Þróttur verður í pottinum þegar dregið verður í átta-liða úrslitin. „Við erum í næstu umferð og höldum áfram. Við spilum aftur við Val á miðvikudag og vonandi verður það eins góður leikur."
Hægt er að sjá allt viðtalið hér að ofan en Þróttur er að byrja þetta tímabil afar vel.
Athugasemdir