Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 27. nóvember 2022 21:18
Ívan Guðjón Baldursson
Fullkrug lék í B-deildinni í fyrra - Sjáðu markið hans
Fullkrug og Hansi Flick í faðmlögum eftir jöfnunarmarkið.
Fullkrug og Hansi Flick í faðmlögum eftir jöfnunarmarkið.
Mynd: EPA

Niclas Füllkrug var hetja Þjóðverja í 1-1 jafntefli gegn Spánverjum á heimsmeistaramótinu í kvöld. Hann gerði jöfnunarmark Þýskalands á lokakafla leiksins en var aðeins að spila sinn þriðja landsleik.


Fullkrug er sóknarmaður hjá Werder Bremen sem lék í þýsku B-deildinni á síðustu leiktíð. Hann er 29 ára gamall og hefur allan ferilinn leikið fyrir félög sem flakka á milli efstu og næstefstu deilda þýska boltans.

Fullkrug hefur undanfarin þrjú ár verið á mála hjá uppeldisfélaginu sínu, Werder Bremen. Hann skoraði 10 mörk í 29 leikjum á fyrstu tveimur tímabilunum en svo féll liðið niður í B-deildina. Það reyndist það besta sem gat komið fyrir Fullkrug.

Sóknarmaðurinn vann sér inn byrjunarliðssæti og setti 19 mörk í 33 leikjum er Bremen fór beint aftur upp úr B-deildinni og í efstu deild. Í Búndeslígunni hélt Fullkrug áfram að skína og hefur verið funheitur í haust - þar sem hann er kominn með 10 mörk í 14 leikjum.

Mikil markaskorun Fullkrug og vöntun á alvöru sóknarmanni í þýska landsliðið urðu til þess að hann fékk landsliðskallið. Hann er ekki í samkeppni við neinn raunverulegan sóknarmann þar sem Youssoufa Moukoko er aðeins 18 ára gamall og Karim Adeyemi er tvítugur en er hægri kantmaður að upplagi.

Þá eru Kai Havertz, Thomas Müller, Jamal Musiala, Mario Götze og Serge Gnabry leikmenn sem geta spilað fremstir en þeir eru allir hæfari í öðrum stöðum á vellinum.

Nú er Füllkrug, sem verður þrítugur í febrúar, kominn með tvö mörk í þremur landsleikjum og verður spennandi að fylgjast með framtíð hans.


Athugasemdir
banner
banner