Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 28. júlí 2021 12:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mirror 
Ringulreiðin hjá Real Madrid
Carlo Ancelotti og Florentino Perez standa við tölvuteiknaða mynd af leikvangi Real Madrid.
Carlo Ancelotti og Florentino Perez standa við tölvuteiknaða mynd af leikvangi Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Zidane lét af störfum.
Zidane lét af störfum.
Mynd: Getty Images
Frá framkvæmdunum við Santiago Bernabeu.
Frá framkvæmdunum við Santiago Bernabeu.
Mynd: Getty Images
Florentino Perez, forseti Real Madrid.
Florentino Perez, forseti Real Madrid.
Mynd: EPA
Frá æfingu Real Madrid í síðustu viku.
Frá æfingu Real Madrid í síðustu viku.
Mynd: Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid.
Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Í júlí 2020 var Real Madrid krýnt Spánarmeistari, ekkert annað lið í heimsfótboltanum var betur mannað og við stjórnvölinn var goðsögn hjá félaginu.

Sergio Ramos, Raphael Varane, Dani Carvajal, Marcelo, Luka Modric, Toni Kroos, Casemiro, Karim Benzema - Átta leikmenn sem voru burðarásar í liði sem vann fjóra Meistaradeildartitla milli 2014 og 2018.

Fyrir félag sem hafði verið þekkt fyrir skort á stöðugleika virtist loksins annað uppi á teningnum og áætlanir um endurnýjun liðsins litu út fyrir að vera þaulskipulagðar.

Ferland Mendy, Fede Valverde, Martin Ödegaard, Vinicius Junior og Rodrygo Goes áttu að vera mennirnir til að taka við kyndlinum.

Engin leikmannakaup voru gerð það sumar þrátt fyrir að nokkur fjöldi leikmanna hvarf á braut. Gareth Bale, James Rodriguez, Sergio Reguilon, Achraf Hakimi, Brahim Diaz, Dani Ceballos og Borja Mayoral voru meðal þeirra sem fóru. Sumir á láni en aðrir voru alfarnir.

Í janúar var Ödegaard einnig hleypt á lán þar sem hann náði ekki að vinna sér inn sæti á miðju Zidane (Casemiro - Kroos - Modric) þrátt fyrir meiðslavandræði innan hópsins.

Í janúar og febrúar var Madrídarliðið bara með ellefu heila útileikmenn og hópurinn hékk á bláþræði. Tímabilið endaði án titils, nágrannarnir í Atletico Madrid urðu Spánarmeistarar. Real sýndi fína frammistöðu og fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar en tapaði þar gegn Chelsea.

Meiðslahrina í Madrídarborg
Dýrasti leikmaður í sögu Madríd, Eden Hazard, var í sífelldum meiðslavandræðum og spilaði síðast heilan leik fyrir félagið í nóvember 2019. Kaupverðið á honum var samkvæmt fréttum 85-136 milljónir punda en það fer eftir ákveðnum klásúlum.

Á síðasta tímabili glímdi Real Madrid við rúmlega 60 mismunandi meiðsli og um tíma var liðið með fjóra hægri bakverði sem allir hafa spilað fyrir spænska landsliðið á meiðslalistanum.

Fyrirliðinn Sergio Ramos, sem hefur haldið sér að mestu frá meiðslalistanum nánast allan ferilinn, gat aðeins byrjað einn leik eftir janúar. Fjöldi leikmanna úr yngri liðunum voru teknir upp til að fylla í leikdagshópana.

Að mörgu leyti má segja að það hafi verið öflugt hjá Real Madrid að hafa átt möguleika á meistaratitilinum fyrir lokaumferðina. Svo óheppnir voru þeir með meiðsli.

Miklu minna fjármagn í laun
Síðasta tímabili lauk með því að Zidane staðfesti að hann væri hættur sem þjálfari, í þriðja sinn og enn og aftur var ákvörðunin hans. Á sama tíma var tilkynnt að ekki yrði gerður nýr samningur við Ramos.

Í gær var staðfest að Raphael Varane væri á leið til Manchester United og því hefur miðvarðaparið sem hefur verið kjölfestan í árangrinum síðasta áratug farið. Zidane, Ramos og Varane hafa verið táknmyndir fyrir félagið og árangur þess.

David Alaba er kominn á frjálsri sölu og Carlo Ancelotti er tekinn við stjórnartaumunum á ný en hans bíður flókið verkefni. Margir stuðningsmenn spyrja af hverju félagið sé ekki að reyna að fá Jules Kounde, varnarmann Sevilla, sem er sagður nálægt því að ganga í raðir Chelsea.

Svarið liggur í því fjármagni sem Real Madrid er með í launakostnað fyrir komandi tímabili. Spænska deildin ætlar að setja hámarkið við 300 milljónir evra. Til samanburðar var launakostnaður félagsins 641 milljón evra á meistaratímabilinu 2019-20. Yfir 50% af fjármagni í launakostnað hefur því horfið á tveimur tímabilum.

Það hafa verið vangaveltur um að brotthvarf Zidane tengist því að félagið var ekki tilbúið að verða að óskum hans á leikmannamarkaðnum. Talið er að ráðningin á Ancelotti sé merki um sparnað innan félagsins og að þeir vildu stjóra sem myndi ekki skapa mikil læti.

Þessar vangaveltur fá ekki síst hljómgrunn vegna afleiðinga heimsfaraldursins og að félagið hefur verið að endurbyggja heimili sitt, Santiago Bernabeu leikvanginn.

Framkvæmdirnar við völlinn eru gerðar svo leikvangurinn verði gríðalega arðbær fyrir félagið til langs tíma og þar geti farið fram tónleikar og ýmsar uppákomur sem tengjast ekki fótbolta. Allt verkefnið kostar félagið um 700 milljónir punda, eftir að lánagreiðslur hafa verið endurgreiddar, og það hefur verið framkvæmt á meðan leikdagstekjur hafa horfið vegna faraldursins.

Hinn ósnertanlegi Perez
Fjölmiðlar í Madríd hafa gefið í skyn að ástæðan fyrir því að Ramos hafi ekki fengið nýjan samning og að félagið hafi ákveðið að selja Varane til að fá pening áður en samningur hans rennur út á næsta ári sé vegna áætlana um fjármagna kaup á ofurstjörnunni Kylian Mbappe hjá Paris Saint-Germain.

Það er erfitt að sjá að þær áætlanir geti gengið eftir með öllum þeim takmörkunum í fjárhagslegum rekstri sem Real Madrid glímir við. Kastljósið beinist að forsetanum Florentino Perez. Önnur valdatíð Perez hjá félaginu hófst 2009 og hefur að mstu verið farsæl. Fleiri Meistaradeildartitlar en nokkuð annað félag getur státað sig af yfir sama tímabil.

Perez var endurkjörinn til fjögurra ára í apríl en stjórn hans breytti reglum félagsins 2012. Reglubreytingin bætti við miklum kröfum á þá sem vildu bjóða sig fram í forsetastólinn. Gagnrýnendur tala um að þetta geri Perez nánast ósnertanlegan og komi í veg fyrir lýðræði.

Nokkrum dögum eftir að Perez var endurkjörinn var tilkynnt um stofnun evrópsku Ofurdeildarinnar. Perez var einn aðalmaðurinn á bak við þær hugmyndir en eftir gríðarleg mótmæli stuðningsmanna hurfu ensku úrvalsdeildarliðin úr þessum áætlunum og Real Madrid sat á endanum eftir ásamt Juventus og Barcelona.

Perez veitti fjölda viðtala í spænskum fjölmiðlum þar sem hann lagði áherslu á að hann myndi halda áfram að vinna að stofnun deildarinnar sem yrði ekki innan UEFA. Hann talaði um að keppnin myndi bjóða upp á flæri fótboltaleiki með háum gæðum og skapa aukið fjármagn í evrópskan fóbolta. Þá sagði hann að deildin myndi höfða betur til yngri aðdáenda.

Hann var gagnrýndur fyrir skort á rökstuðningi og margir telja að í raun sé þetta bara valdaleikur þar sem hagsmunir stærstu félaga álfunnar eru hafðir að leiðarljósi.

Ringulreið og óvissa
Það kemur ekki mikið á óvart að Real Madrid, Barcelona og Juventus séu félögin þrjú sem eftir standa. Tekjustreymi til þessara félaga hafa minnkað snarlega í samkeppni við keppinauta í ensku úrvalsdeildinni og franska stórliðið Paris Saint-Germain.

Perez hefur mikil völd og áhrif í íþróttalífi og viðskiptum á Spáni en er ekki með mikil völd í Evrópu.

Spjótin hafa beinst að Perez og það bætti olíu á eldinn þegar hljóðupptökur láku út til spænskra fjölmiðla þar sem hann drullar yfir nokkra mikilsvirta menn hjá félaginu. Meðal annars fá Luis Figo, Raul, Cristiano Ronaldo og Jose Mourinho að heyra það.

Vinsældir Perez hafa hrapað og ímyndunarvandi hans farið vaxandi. Staða hans innan Real Madrid er skyndilega ekki eins sterk og hún var. Uppbyggingin á leikvangnum gefur félaginu væntanlega aukið tekjustreymi til langs tíma en þegar horft er til næstu ára er bjartsýnin ekki nægilega mikil.

Þetta er félag þar sem vaninn er að fá inn stjörnuleikmenn og halda í þá. Félag sem alla fótboltamenn hefur dreymt um að spila fyrir en atburðir síðustu tólf mánaða hafa skapað mikla ringulreið og óvissu.

Byggt á grein sem birtist í Mirror
Athugasemdir
banner
banner