Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   lau 28. nóvember 2020 20:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jökull þakkar fyrir sig - Í miklum metum hjá stuðningsmönnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull Andrésson varði í dag mark Exeter í síðasta sinn.

Hann hefur verið á neyðarláni hjá félaginu frá Reading. Markvarðarvesen hefur verið hjá Exeter en aðalmarkvörður liðsins er orðinn heill heilsu og því er ekki hægt að framlengja lánið.

Jökull lék alls níu leiki með Exeter og unnust fimm þeirra, jafnteflin voru þrjú og aðeins eitt tap. Jökull er nítján ára gamall.

Hann þakkar fyrir tíma sinn hjá Exeter, sem er í D-deildinni á Englandi, með færslu á Twitter.

„Ég vil þakka knattspyrnustjóranum, öllu starfsfólkinu og öllum leikmönnunum fyrir dásamlegan tíma. Ég vil líka þakka stuðningsmönnunum fyrir öll fallegu skilaboðin. Ég gæti ekki verið ánægðari með að enda á risastórum sigri," skrifaði Jökull og óskaði hann Exeter alls hins besta í framtíðinni.

Jökull var í marki Exter í dag þegar liðið vann óvæntan sigur á Gillingham í enska bikarnum. Það var kveðjuleikur hans hjá félaginu.

Miðað við svörin sem Jökull hefur fengið við færslu sinni, þá er ljóst að hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Exeter.







Athugasemdir
banner
banner
banner