Watkins orðaður við United - Bayern sýnir Díaz áhuga - Arsenal hefur rætt við Eze
   sun 28. nóvember 2021 17:14
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telur að Rangnick hafi valið liðið
Gary Neville er ekki sannfærður um að Michael Carrick hafi valið byrjunarlið Manchester United gegn Chelsea.

Leikurinn er núna í gangi og er staðan enn markalaus þegar styttist í leikhlé.

Byrjunarlið Man Utd vakti athygli. Það voru gerðar nokkrar breytingar frá leiknum gegn Villarreal þar sem liðið fór með sigur af hólmi. Stærst var það að Cristiano Ronaldo var settur á bekkinn.

Neville, sem er fyrrum leikmaður Man Utd, telur að Ralf Rangnick sem er að taka við liðinu hafi valið liðið. Ekki er enn búið að staðfesta ráðningu Rangnick þar sem hann er ekki enn kominn með atvinnuleyfi. Neville telur samt að hann hafi valið liðið.

„Það er mikið af fólki að gagnrýna Carrick fyrir að velja ekki Ronaldo og setja saman þessa miðju. Ég hef á tilfinningunni að stjórinn sem er að koma inn hafi valið þetta lið. Þetta er mikil breyting frá leiknum í miðri viku og því sem þeir hafa verið að gera," sagði Neville.

Rangnick hefur ekki enn stýrt æfingu en samkvæmt fréttum frá Englandi, þá hefur hann verið að fá myndefni frá æfingasvæðinu til að undirbúa sig fyrir það þegar hann byrjar að þjálfa liðið.

Það er erfitt að sjá Ronaldo henta í leikstíl Rangnick, sem byggir lið sín aðallega á ungum leikmönnum sem eru viljugir til að hlaupa úr sér lungun. Það gefur frekar vísbendingu um að hann hafi haft áhrif á liðsvalið í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner