Ítalska stórveldið Juventus hefur þegar hafist handa við að styrkja leikmannahópinn sinn fyrir næstu leiktíð. Thiago Motta, sem gerði frábæra hluti með Bologna, er að taka við stjórn á þjálfun liðsins eftir brottrekstur Max Allegri.
Juve er auk þess svo gott sem búið að krækja í markvörðinn Michele Di Gregorio, besta markvörð ítölsku deildarinnar á tímabilinu, og er einnig að ganga frá kaupum á varnarmanni og miðjumanni.
Varnarmaðurinn Riccardo Calafiori er á leiðinni frá Bologna, þar sem hann var einn af bestu leikmönnum liðsins undir stjórn Motta. Calafiori er 22 ára gamall og leikur sem miðvörður að upplagi en getur einnig spilað í vinstri bakverði eða á vinstri kanti.
Calafiori er sagður vera afar spenntur fyrir að starfa undir stjórn Motta hjá Juventus en félögin eiga eftir að komast að samkomulagi um kaupverð fyrir leikmanninn, sem á þrjú ár eftir af samningi.
Svipaða sögu er að segja af hollenska miðjumanninum Teun Koopmeiners sem hefur verið meðal bestu miðjumanna ítölsku deildarinnar síðustu tímabil.
Koopmeiners er 26 ára og á þrjú ár eftir af samningi við Atalanta, sem er ekki reiðubúið til að selja hann með neinum afslætti.
Koopmeiners á 15 mörk og 7 stoðsendingar í 50 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu, er hann hjálpaði Atalanta að sigra Evrópudeildina í fyrsta sinn.
Athugasemdir