fös 29. júlí 2022 08:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fullyrða að búið sé að reka Milos úr starfi
Milos Milojevic.
Milos Milojevic.
Mynd: Raggi Óla
Milos er fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings.
Milos er fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænska úrvalsdeildarfélagið Malmö hefur tekið þá ákvörðun að reka Milos Milojevic úr starfi þjálfara.

Félagið hefur ekki staðfest þetta en um það er fjallað í öllum sænskum fjölmiðlum.

Milos er fæddur í Serbíu en er einnig með íslenskt ríkisfang. Hann hefur verið að gera áhugaverða hluti á þjálfaraferlinum.

Hér á landi var hann leikmaður með Hamri í Hveragerði, Ægi í Þorlákshöfn og Víkingi í Reykjavík áður en hann fór út í þjálfun. Hann var fyrst aðstoðarþjálfari Víkings og tók svo við liðinu í kjölfarið. Hann þjálfaði einnig Breiðablik áður en hann fór svo erlendis.

Hann tók við Mjällby í Svíþjóð árið 2018 og gerði mjög vel í því starfi. Hann var einn af aðstoðarþjálfurum Rauðu Stjörnunnar í Belgrad 2019-2021 áður en hann sneri aftur við Svíþjóðar til að taka við Hammarby. Svo tók hann við Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð, í byrjun þessa árs.

Árangurinn þar hefur ekki verið ásættanlegur og hefur félagið núna tekið þá ákvörðun að láta hann taka pokann sinn.

Milos stýrði Malmö til sigurs í sænsku bikarkeppninni en það er ekki nóg þar á bæ. Liðið féll úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar gegn Zalgiris Vilnius frá Litháen á dögunum. Voru þetta einhver óvæntustu úrslit keppninnar í ár en Malmö fór í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Í umferðinni þar á undan skreið Malmö rétt fram hjá Víkingum.

Malmö er þá í fimmta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá toppliði Djurgården. Krafan er sú að Malmö vinni deildina á hverju ári.

Þetta sigursæla félag hefur tekið ákvörðun um að fara í aðra átt núna, þetta samstarf var ekki að virka nægilega vel. Það verður áhugavert að sjá hvað Milos tekur sér næst fyrir hendur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner