þri 29. september 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Staðan breyst mikið á fjórum árum hjá félagi Elísabetar í Svíþjóð
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð.
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð.
Mynd: Fotball Gala
Elísabet var þjálfari Vals áður en hún tók við Kristianstad 2009.
Elísabet var þjálfari Vals áður en hún tók við Kristianstad 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svava Rós Guðmundsdóttir hefur átt mjög gott tímabil með Kristianstad.
Svava Rós Guðmundsdóttir hefur átt mjög gott tímabil með Kristianstad.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við björguðum okkur á síðustu mínútu," segir Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska liðsins Kristianstad, í samtali við Fotbollskanalen.

Árið 2016, fyrir fjórum árum síðan, varð Kristianstad næstum því gjaldþrota. Liðið var líka í vandræðum inn á vellinum og nálægt því að falla úr sænsku úrvalsdeildinni. En félagið náði að bjarga sér og spilaði Elísabet ansi stórt hlutverk þar.

Hún sagði frá því í sjónvarpsþættinum Áskorun í Sjónvarpi Símans þegar hún reyndi að fá fund með Rune Andersson, einum ríkasta manni Svíþjóðar. Illa gekk að ná á Rune en aðstoðarkona hans vildi ekki leyfa Elísabetu að fá fund með honum.

„Eitt af fyrirtækjunum hans var í myndatöku á Íslandi og þá hringdi ég aftur í konuna og sagðist vera íslenskur blaðamaður að reyna að ná viðtali við Rune Andersson. Þá fékk ég GSM númerið á fimm sekúndum og hringdi í hann. Ég bullaði á ensku og laug að honum til að fá fund," sagði Elísabet í Áskorun.

„Hann leit á mig sem frumkvöðul. Hann elskaði hugmyndina að því hvernig ég laug mig inn á fundinn. Ég átti þriggja tíma fund með honum sem breytti ýmsu."

Kristianstad fékk fólkið og fyrirtækin í kringum sig með í baráttuna og náði að bjarga sér.

„Eftir að þetta gerðist allt saman byrjuðum við að byggja upp á annan hátt. Við byrjuðum að leggja meira í unglingastarfið og að þróa okkar eigin leikmenn," segir Elísabet við Fotbollskanalen. „Við værum ekki á þeim stað sem við erum á í dag ef við hefðum ekki ákveðið að gefa ungum leikmönnum tækifæri snemma."

Elísabet hefur þjálfað Kristianstad frá 2009 með góðum árangri. Mjög góðum árangri. Árið 2016 náði liðið að bjarga sér á dramatískan hátt, en núna fjórum árum síðar er liðið í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og mögulega á leið í Evrópukeppni. Efstu þrjú liðin fara í Meistaradeild kvenna.

„Markmið okkar fyrir tímabilið var skýrt," segir Elísabet. „Við vildum berjast á toppnum, en Rosengård og Gothenburg eru í klassa út af fyrir sig. En við vitum vel að því að þriðja sætið þýðir Evrópukeppni en við erum ekki eina liðið sem er að berjast um það sæti."

Þegar þessi frétt er skrifuð er Kristianstad með einu stigi meira en Linköping þegar sex umferðir eru eftir af deildinni.

„Ég hef sex sinnum á tólf árum hugsað um að ég geti ekki tekið liðið lengra, og þá hugsaði ég um að gera eitthvað annað. En svo lengi sem ég tel að ég geti bætt liðið og ég geti stuðlað að bætingu, þá mun ég vera áfram. Ég er með stóra drauma fyrir þetta félag."

Þess má geta að tveir íslenskir leikmenn eru á mála hjá Kristianstad. Þær Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmunsdóttir. Björn Sigurbjörnsson er aðstoðarþjálfari Elísabetar.

Viðtalið við Elísabetu má í heild sinni lesa hérna. Þar ræðir hún nánar um liðið sitt og veikindi sem hafa verið að hrjá hana síðustu mánuði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner