Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 29. nóvember 2019 14:24
Fótbolti.net
Brot úr bók Söru Bjarkar: „En þú getur samt orðið flugfreyja”
Bókin Sara Björk – Óstöðvandi er gefin út af Benedikt bókaútgáfu.
Bókin Sara Björk – Óstöðvandi er gefin út af Benedikt bókaútgáfu.
Mynd: Sara Björk – Óstöðvandi
Gifsið náði frá ökkla og upp á mitt læri.
Gifsið náði frá ökkla og upp á mitt læri.
Mynd: Sara Björk – Óstöðvandi
Sara er fyrirliði Íslands.
Sara er fyrirliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og Íþróttamaður ársins 2018, segir frá fótboltaferlinum og uppvaxtarárum sínum í bókinni Óstöðvandi sem kemur út nú fyrir jólin. Það er Magnús Örn Helgason knattspyrnuþjálfari sem skráir sögu Söru en bókin er komin í verslanir um land allt.

Fótbolti.net birtir hér brot úr bókinni þar sem sagt er frá hræðilegu slysi sem Sara lenti í sem unglingur og hélt henni frá knattspyrnuvellinum í langan tíma:



3. kafli

Vorferðin afdrifaríka


Í Hvaleyrarskóla er það hefð að 9. bekkur fari í fimm daga vorferð. Við mættum á Reyki í Hrútafirði eftir margra vikna tilhlökkun. Fæstir vissu nákvæmlega hvar Hrútafjörður væri á landakortinu –
samveran framundan var aðalmálið. Ferðin byrjaði vel, rútuferðin norður var fjörug, en við vorum ekki búin að vera lengi á svæðinu þegar ég lenti í slysi sem átti eftir að hafa miklar afleiðingar.

Það er erfitt að hugsa til baka en samt get ég aldrei gleymt þessum augnablikum; fjörinu, leiknum, boltanum sem ég ætlaði að ná, högginu sem ég fékk og hræðslunni sem greip mig þegar ég reyndi að standa upp ... og fann að það var eitthvað alvarlegt að hnénu.

Þetta var saklaus leikur í sveitaferð með skólanum, en samt hugsaði ég: „Fjandinn, ég er ekki í nógu góðu liði!“ þegar kennararnir höfðu skipt hópnum í tvennt. „Ég vil vinna!“ Þannig hef ég alltaf hugsað.

Liðin fóru í sitt hvorn endann á íþróttasalnum og markmiðið var að koma stórum jógabolta í vegginn hjá andstæðingnum. Ég stilli mér upp fremst í hópnum, bruna af stað, kem fyrst að boltanum, skólabróðir minn æðir á móti mér, við sjáum hvort annað en hvorugt hægir á sér.

Það verður svakalegur árekstur og ég steinligg.
Verkurinn var stingandi og ég bara vissi að þetta væri alvarlegt.


Þetta var hrikalegt. Ég reyndi að halda kúlinu fyrir framan vinina, kyngdi öskrunum, en það tók á. Verkurinn var yfirþyrmandi og líka fullvissan um að þetta væri eitthvað alvarlegt.

Kennararnir fóru með mig inn á herbergi, gáfu mér verkjatöflur og sögðu mér að reyna að sofna, sem gekk eftir þótt ótrúlegt megi virðast. Ég vaknaði jafn kvalin og áður og hnéð var stokkbólgið, að minnsta kosti þrefalt. Þá var ákveðið að leita læknis. Sá spurði hvers vegna í ósköpunum ég væri ekki lögð af stað til Reykjavíkur!

Það var þolraun að keyra sárþjáð til læknisins og aftur til baka, eftir holóttum malarvegi, kveðja krakkana og hina langþráðu skólaferð og halda áfram áleiðis til Reykjavíkur. Ég sat í aftursætinu og steinþagði.

Foreldrar mínir mættu okkur í Borgarnesi. Maður var ekkert með síma á sér á þessum árum og kennararnir höfðu séð um samskiptin. Vá, hvað það var gott að sjá þau. Ég var ekki laus við gelgjustæla á þessum aldri en það var gott að knúsa mömmu og pabba og finna fyrir öryggi. Við vorum rúman klukkutíma að keyra úr Borgarnesi á slysadeildina í Fossvogi. Þar þurftum við að bíða dágóða stund. Þegar loksins kom að mér þurfti fyrst að tappa vökva af hnénu. Risastórri nál var stungið inn í hnéð og það var frekar óhuggulegt að sjá blóðlitaðan vökvann seytla út. Eftir það var hægt að taka röntgenmynd. Það var komið fram á nótt þegar okkur var tilkynnt að það væri sprunga í lærleggnum.

Ég hafði búið mig undir hið versta, en samt voru þetta skelfileg tíðindi. Mér var sagt að svona sprunga þýddi gifs í 5 vikur; en síðan gæti ég byrjað að hreyfa mig. Þá hugsaði ég með mér að þetta hefði nú getað verið verra.

Gifsið náði frá ökkla og upp á mitt læri og ég gisti á spítalanum eina nótt. Næstu vikur fór ég um á hækjum og í hjólastól. Það var ekki alslæmt, stóllinn vakti mikla lukku í skólanum; var til dæmis notaður í Formúlu1-keppni í frímínútum, jafnt innan dyra sem utan, gangavörðum til nokkurrar mæðu.

Ég dröslaðist út um allt með krökkunum og harðneitaði að vera heima í einhverri slökun. Ég reyndi að vera bjartsýn og vonaði að ég gæti byrjað að æfa aftur um leið og ég losnaði við gifsið.

Það varð ekki alveg svo einfalt.

Hné í ólagi

Laus við gifsið í maí hitti ég Veig Sveinsson sjúkraþjálfara, en hann er Haukamaður og móðurbróðir vinkonu minnar. Vöðvarnir rýrna þegar þeir eru ekki notaðir vikum saman svo það var mikilvægt að fá viðeigandi aðstoð við að komast aftur af stað. Veigur sá strax að hnéð var í ólagi. Það var óstöðugt. Hann vildi láta bæklunarskurðlækni skoða þetta betur og útvegaði mér tíma hjá sérfræðingi sem hafði unnið talsvert með íþróttafólki.

Ég varð verulega óörugg við þessar fréttir. Fótboltasumarið var framundan og ég þurfti að byrja að æfa aftur til að geta staðið mig í fyrstu leikjum Íslandsmótsins. En nú var allt í óvissu.

Ég hitti bæklunarskurðlækninn þrisvar. Fyrst þurfti að fjarlægja liðmús, laust brjósk í hnénu, og svo að skoða liðböndin betur. Okkur mömmu fannst læknirinn dálítið utan við sig; í eitt skiptið byrjaði hann að skoða rangt hné! Þetta var reyndur læknir sem margir báru vel söguna, en átti því miður ekki eftir að reynast mér nógu vel.

Þriðja – og síðasta – heimsóknin til hans var ógleymanleg. Þá tilkynnti hann okkur mömmu að ég væri með slitið krossband og myndi líklega aldrei spila fótbolta aftur. Ég brotnaði algjörlega niður en reyndi að halda aftur af tárunum. Læknirinn ætlaði líklega að hughreysta mig þegar hann sagði:

„... en þú getur samt orðið flugfreyja.“

Ég var orðlaus. Skildi ekki þessa athugasemd og vissi ekki mitt rjúkandi ráð.

Ég setti hettuna yfir höfuðið og beit í hálsmálið á Nikita- peysunni minni. Mig langaði til að láta mig hverfa úr þessum aðstæðum. Við mamma sögðum ekki orð í lyftunni og alla leið út í bíl en þegar ég settist í framsætið brast stíflan. Ég hágrét. Mamma fór líka að gráta og við sátum í dágóða stund og grétum í kór.

Kannski var það á þessu augnabliki sem ég áttaði mig fyrir alvöru á því hve miklu máli fótboltinn skipti mig. Ég elskaði svo mikið að æfa og spila að það voru hreinlega engin takmörk fyrir því. Mér fannst heimurinn hruninn fyrst ég kæmist aldrei út á völlinn á ný.
Athugasemdir
banner
banner
banner