Vestri tilkynnti á dögunum ráðningu á Englendingnum Daniel Badu sem nýjan þjálfara liðsins. Badu, sem er 38 ára gamall, er vel kunnugur á Ísafirði eftir tíu tímabil sem leikmaður hjá félaginu, fyrst með BÍ/Bolungarvík og síðar Vestra. En hann hefur jafnframt verið viðloðandi þjálfarateymið síðustu ár.
Hann tekur við liði sem stendur frammi fyrir krefjandi verkefni, en Vestri mun í fyrsta sinn í sögunni taka þátt í Evrópukeppni næsta sumar eftir sigur í bikarkeppninni, þó liðið hafi jafnframt fallið niður í Lengjudeild.
Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs Vestra, um ráðninguna á Badu og stöðu leikmannamála hjá félaginu.
„Daniel Badu er að okkar mati frábær þjálfari og frábær kennari. Hann þekkir félagið, bæinn og fólkið gríðarlega vel. Það þarf ekki að koma honum inn í neitt. Hann var auðvitað aðstoðarþjálfari 2023 og 2024 hjá okkur, hann veit nákvæmlega um hvað málin snúast hérna fyrir vestan. Við treystum á hann þrátt fyrir að hann hafi litla reynslu sem aðalþjálfari.“
„Það er auðvitað öðruvísi að þjálfa hér fyrir vestan. Janúar og febrúar á Ísafirði er ekkert djók. Við vildum frekar fá mann sem þekkir til, mann sem við þurfum ekki að koma inn í hlutina og mann sem við höfum trú á. Menn eru kannski óánægðir að við sóttum ekki stærri prófíl, en ég hef fulla trú á honum. Ef Daniel fær sama stuðning og Davíð fékk frá stjórn og stuðningsmönnum þá held ég að hann geti orðið stórt nafn í íslenskum fótbolta innan tveggja, þriggja ára.“
Einungis verið aðalþjálfari í 5. deild
Badu var aðstoðarmaður Davíðs þegar Vestri fór upp í efstu deild. Hann kom svo inn í þjálfarateymi liðsins tvisvar tímabilið 2024 þegar Davíð tók út leikbönn. Á liðnu tímabili var hann þjálfari Harðar sem er venslalið Vestra og leikur í 5. deild.
„Við höfum áður farið ótroðnar slóðir í þjálfaramálum. Ég held að Gunnar Heiðar hafi bara þjálfað KFS þegar við réðum hann. Það kom fólki mjög á óvart þegar við réðum Davíð Smára á sínum tíma en hann hafði samt alveg sannað sig, þetta var ekkert nýtt fyrir honum. Við erum óhrædd við að gefa mönnum séns og stöndum og föllum með því. En við teljum þetta vera lítinn séns, við höfum bullandi trú á Daniel.
Góður maður sagði: Einhvers staðar verður maður að byrja. Það er oft talað um unga leikmenn og að þú verður að gefa þeim sénsinn. Við lítum á þetta þannig að þegar hann fær að sýna sig og sanna, þá sér fólk að ráðningin er góð. Auðvitað verðum við að sjá til hvernig þetta fer og mun ganga en við höfum bullandi trú á honum, annars hefðum við ekki ráðið hann.“
Voru þið í viðræðum við fleiri þjálfara?
„Svo ég sé alveg heiðarlegur við þig, þá spjölluðum við tvo, þrjá aðra. En ég get ekki sagt að við vorum komin langt í þeim viðræðum.“
Vonast til að halda Vigni sem aðstoðarþjálfara
Er komið á hreint með aðstoðarþjálfaramál?
„Við erum að skoða það. En ég get verið hreinskilinn með það líka, við vonumst til að halda Vigni Snæ (Stefánssyni) hjá okkur. En það er ekkert klárt.“
Vignir tók við af Daniel Badu sem aðstoðarþjálfari Vestra á síðasta tímabili. Vignir er einungis 29 ára en hann var aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar áður en hann fór vestur. Þar áður hafði hann þjálfað yngri flokka Gróttu og KR.
Sem leikmaður lék Vignir meðal annars með Víkingi Ólafsvík og Þór Akureyri áður en hann lagði skóna á hilluna 2021.
Vestri tilkynnti í gær að Vladan Djogatovic yrði áfram í þjálfarateymi meistaraflokks karla sem markvarðarþjálfari. Djogatovic hefur verið í teyminu síðustu ár og gerði þriggja ára áframhaldandi samning við Vestra.
Stórir póstar framlengt við Vestra
Félagið framlengdi jafnframt við uppöldnu Vestfirðingana Elmar Atla Garðarsson og Pétur Bjarnason.
„Við vitum hvað býr í þeim báðum. Þetta eru góðir leikmenn og eru Vestramenn þó að þeir hafi ekki spilað mikið í sumar. Elmar spilaði lítið og Pétur kom seint inn. Við bindum gríðarlega miklar vonir við þá og að þeir leiði þetta svolítið áfram.“
Vestri framlengdi jafnframt við Patrek Bjarna Snorrason (f. 2007) og markvörðinn Benedikt Jóhann Þ. Snædal (f. 2006) í gærdag.
Ætla sér að fækka aðkomumönnum
„Við þurfum að sækja mikið af leikmönnum, við förum í breytingar á leikmannahópnum. Við munum fækka aðkomumönnum og taka inn yngri stráka héðan að vestan. Þó að við fækkum þessum aðkomumönnum munum við þurfa að sækja heilan helling af þeim og þeir þurfa að vera góðir. Það er vandasamt val sem þjálfarateymið stendur fyrir.
„Teymið þarf að finna nýja menn inn til að fylla í skarðið fyrir þá leikmenn sem eru farnir eða eru á förum. Það er ekki alveg komið á hreint hverjir munu fara. Við erum að vinna í þeim málum og ég hald að það muni skýrast á næstu vikum hverjir það eru sem munu halda áfram. Þetta er eins og gengur og gerist þegar lið falla um deild. Þá er það ekki gefið að við getum haldið þeim þrátt fyrir að við viljum það,“ sagði Samúel að lokum.


