þri 29. nóvember 2022 21:20
Ívan Guðjón Baldursson
Antony kennir loftræstikerfinu um veikindi leikmanna
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Antony, kantmaður Manchester United og brasilíska landsliðsins, segir að loftræstikerfin í Katar séu óholl og kennir þeim um veikindi í herbúðum Brasilíu.


Það eru loftræstikerfi á öllum HM-leikvöngum í Katar til að berjast gegn hita og raka en Antony telur ekki að tíðar og öfgafullar hitabreytingar séu hollar.

Antony hefur verið að kvarta undan slappleika og veikindum og er ekki sá eini um það í brasilíska hópnum. Hann telur þetta þó ekki vera neinn vírus heldur einfaldlega hitastigsbreytingarnar sem leikmenn þurfa að ganga í gegnum á hverjum degi í Katar.

„Þetta hefur verið svolítið erfitt, mér leið illa í nokkra daga en er allur að koma til. Þetta var svipað og hálsbolga nema að það sem olli þessu eru loftræstikerfin á leikvöngunum hérna. Ég er ekki sá eini sem hefur lent í þessu því fleiri í liðinu hafa verið slæmir í hálsinum og að hósta útaf þessu," sagði Antony.

„Það er erfitt fyrir mig að þurfa að glíma við veikindi núna en ég er ánægður og þakklátur fyrir að vera hérna. Hvenær sem Antony er þörf með landsliðinu þá er ég til staðar."

Það eru ekki aðeins leikmenn brasilíska landsliðsins hafa fundið fyrir þessum áhrifum heldur einnig leikmenn í landsliði Spánar og víðar. Dani Carvajal og Alvaro Morata fundu sérstaklega mikið fyrir þessu og byrjuðu þess vegna á varamannabekk Spánverja í fyrstu umferð. 

Antony hefur komið við sögu í báðum leikjum Brasilíu í riðlakeppni heimsmeistaramótsins en þó aðeins undir lokin. Hann gæti fengið tækifæri með byrjunarliðinu í lokaumferð riðlakeppninnar gegn Kamerún, þar sem Brassar eru þegar búnir að tryggja sig upp úr G-riðli.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner