Chelsea hefur áhuga á Openda - Arsenal vill Onana - Chelsea hafnar tilboði Atletico
   mán 20. maí 2024 09:10
Elvar Geir Magnússon
Crawley fagnaði á Wembley - Spáð falli en komst upp
Liam Kelly var besti maður vallarins.
Liam Kelly var besti maður vallarins.
Mynd: Getty Images
Crawley Town klúbburinn á Íslandi hittist á Ölveri.
Crawley Town klúbburinn á Íslandi hittist á Ölveri.
Mynd: Fótbolti.net
Crawley Town vann sanngjarnan 2-0 sigur gegn Crewe Alexandra í úrslitaleik umspils ensku D-deildarinnar í gær og komst þar með upp í C-deildina, League One.

Crawley var að spila í fyrsta sinn á Wembley leikvangnum og liðinu leið vel þar, spilaði fantaflottan fótbolta og komst yfir með glæsilegu marki Danilo Orsi.

Crewe hélt að liðið væri að fá vítaspyrnu til að jafna leikinn en dómarinn endurskoðaði ákvörðun sína eftir að hafa farið í VAR skjáinn. Þar sá hann greinilega að markvörðurinn skemmtilegi Correy Addai hafði farið í boltann og tók dóm sinn til baka.

Scott Lindsey stjóri Crawley sagði fyrir leik að hann væri mótfallinn því að VAR yrði notað í leiknum. Spurning hvort hann sé á annarri skoðun núna?

Liam Kelly, besti maður vallarins, innsiglaði sigur Crawley í lokin en hann var magnaður á miðsvæðinu.

Lindsey, sem hefur gert frábæra hluti með Crawley og gjörbreytt leikstíl liðsins, sagði eftir leikinn að það væru leikmennirnir sem ættu allan heiðurinn. Stuðningsmenn gefa Lindsey hinsvegar mesta hrósið.

Lindsey hefur sýnt gríðarleg klókindi á leikmannamarkaðnum en níu í leikmannahópi Crawley í gær voru í utandeildinni fyrir ári síðan. Liðið var með einn lægsta launakostnað í ensku D-deildinni og var spáð falli niður í utandeildina fyrir tímabilið.

Fyrir ári síðan endaði liðið í 22. sæti D-deildarinnar og bjargaði sér naumlega frá falli. Það verður eitt minnsta félag C-deildarinnar á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner