Newcastle gæti selt Isak fyrir 83 milljónir punda - Atletico hefur áhuga á Ndidi - Huijsen orðaður við Liverpool
   lau 30. september 2023 18:43
Brynjar Ingi Erluson
England: Dramatík er Tottenham vann Liverpool - Matip skúrkurinn
Tottenham 2 - 1 Liverpool
1-0 Son Heung-Min ('36 )
1-1 Cody Gakpo ('45 )
2-1 Joel Matip ('90, sjálfsmark )

Tottenham Hotspur lagði níu leikmenn Liverpool að velli, 2-1, í 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Lundúnum í dag, en það var sjálfsmark kamerúnska varnarmannsins Joel Matip sem skóp sigur Tottenham.

Liverpool var nálægt því að taka forystuna á 13. mínútu. Cody Gakpo fékk sendingu frá Andy Robertson inn í teiginn, en Guglielmo Vicario varði skot hans áður en Robertson fylgdi á eftir, en aftur varði Vicario.

Þrettán mínútum síðar var Curtis Jones rekinn af velli fyrir brot á Yves Bissouma. Simon Hooper, dómari leiksins, gaf honum gula spjaldið, en var beðinn um að kíkja á VAR-skjáinn til að skoða atvikið betur og þá breytti hann litnum og sendi Jones af velli. Líklega réttur dómur.

Á 34. mínútu kom Luis Díaz boltanum í netið eftir sendingu frá Mohamed Salah, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Þegar endursýning og línurnar hjá VAR voru skoðaðar var þetta ansi tæpt.

Tveimur mínútum síðar skoraði Heung-Min Son fyrir Tottenham eftir góða sókn. James Maddison þræddi Richarlison inn vinstra megin, áður en hann fann Son í teignum og skoraði suður-kóreski sóknarmaðurinn örugglega.

Richarlison átti skot í stöng undir lok hálfleiksins áður en Cody Gakpo jafnaði metin. Hann fékk boltann með bakið í markið, en náði að snúa sér og koma boltanum í netið.

Díaz komst nálægt því að koma Liverpool yfir þegar hann fékk sendingu inn í teiginn, en skot hans rétt framhjá.

Gakpo fór meiddur af velli í hálfleik og inn kom Diogo Jota.

Í síðari hálfleiknum byrjuðu heimamenn vel og áttu nokkrar tilraunir sem Alisson sá við. Son kom boltanum aftur í netið stuttu síðar, en markið var dæmt af þar sem Richarlison var rangstæður í aðdragandanum.

Liverpool missu annan mann af velli á 69. mínútu. Jota fékk þá sitt annað gula spjald fyrir brot á Bissouma, en dómurinn þótti umdeildur þar sem Destiny Udogie felldi sig sjálfan sig í fyrra gula spjaldi Jota, sem hann fékk mínútu áður.

Gestirnir reyndu að halda stiginu og leit út fyrir að jafntefli yrði niðurstaðan, en þegar hálf mínúta var eftir af uppbótartímanum fékk Pedro Porro boltann hægra megin við teiginn, kom með fyrirgjöf sem Joel Matip þrumaði upp í þaknetið og lokatölur því 2-1 Tottenham í vil.

Þetta var fyrsta tap Liverpool í deildinni á þessu tímabili, en Tottenham er nú í 2. sæti með 17 stig en Liverpool í 4. sæti með 16 stig.
Athugasemdir
banner