Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   þri 05. júlí 2011 09:30
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ég mun sakna Scholesy og Jóns Guðna
Sam Tillen
Sam Tillen
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Paul Scholes.
Paul Scholes.
Mynd: Getty Images
Þetta tímabil hefur alls ekki byrjað eins og við bjuggumst við hjá Fram. Ég bjóst við að við myndum að minnsta kosti berjast um Evrópusæti en núna erum við í erfiðri stöðu. Um leið og við náum í okkar fyrsta sigur er ég viss um að sjálfstraustið mun koma aftur en það eru mikil vonbrigði að fyrsti sigurinn sé ekki ennþá kominn. Frammistaða okkar í deildinni hefur batnað að undanförnu og við höfum verið óheppnir að ná einungis í 2 stig hingað til. Við höfum ekki verið yfirspilaðir í neinum leik hingað til og við höfum verið að tapa naumlega. Mér fannst leikir okkar gegn KR og Breiðablik vera góðir en leikurinn gegn FH eyðilagðist í fyrri hálfleik út af vindinum. Toddi hefur verið að hvetja okkur til að halda áfram að reyna að spila og hann hefur gert sitt besta í að taka alla pressu af okkur. Mér fannst við við spila sérstaklega vel í síðari hálfleiknum í Kópavogi og við hefðum getað unnið þar. Úrslitin gegn Þrótti voru mikil vonbrigði og í raun vandræðaleg en eftir þessi úrslit og lélega byrjun okkar held ég að flestir séu búnir að afskrifa okkur. Núna er tími til kominn að sýna liðsanda og að við höfum hæfileika til að snúa þessu við.

Ég er ánægður fyrir hönd Jón Guðna Fjólu að hafa gengið til liðs við Germinal í Belgíu. Hann er frábær persóna og hæfileikaríkur leikmaður sem getur náð langt og ég vona að þessi skipti hjálpi honum. Það hefur verið gaman að spila með Jóni Guðna undanfarin þrjú ár og að vera við hlið hans þegar hann hætti að vera efnilegur og varð góður fótboltamaður, í Evrópuleiknum gegn Sigma úti í Tékklandi. Ég vil óska honum og fjölskyldu hans alls hins besta.

Því miður duttu bæði England og Ísland út á EM í Danmörku. Ég hélt að bæði lið myndu komast áfram úr riðlinum en ég er viss um að íslenskur strákarnir hafa öðlast mikla reynslu á mótinu og í undankeppninni. Það er ómetanlegt fyrir þá því að núna taka þeir næsta skref á ferli sínum með A-landsliðinu og vonandi komast þeir á sitt fyrsta stórmót þar. Á hinn bóginn, hversu góðir voru Spánverjar! Ég hafði gaman af því þegar Englendingar gerðu jafntefli við þá í opnunarleik sínum og Stuart Pearce þjálfari sagði: 'ef við hefðum haft boltann jafnmikið og Spánverjar voru með hann þá hefðum við unnið 5 eða 6-0.' Það var auðvitað ástæða fyrir því af hverju Spánverjar voru svona mikið með boltann, þeir voru miklu betri tæknilega! Þetta varð til þess að enskir fjölmiðlar fóru (aftur) að leita að ástæðu þess af hverju Englendingar geta ekki haldið boltanum og stjórnað leikjum gegn öðrum toppliðum í Evrópu. Þetta mun ekki breytast fyrr en hugarfarið í fótboltanum á Englandi breytist. England þarf að ala upp þessa téknísku leikmenn, (sem eru til) frekar en að láta þá fara þar sem að þeir eru of litlir og einbeita sér að þeim sem eru sterkir. Það hefur líka áhrif að vilja spila beinskeytt í stað þess að halda boltanum. Það er hægt að lýsa þessu með einu dæmi. Hvort myndir þú vilja hafa Fabrice Muamba eða Thiago Alcantara í þínu liði? Það er ekki séns í helvíti að Muamba gæti nokkurntímann komist í spænska liðið og ég er nokkuð viss að einhver með hæfileika eins og Thiago myndi eiga í erfiðleikum með að komast í enska liðið þar sem honum skortir líkamlegan styrk. Þangað til að þetta breytist þá mun biðin eftir titli hjá landsliði halda áfram.

Það var sorglegur dagur fyrir mig þegar Paul Scholes hætti í fótbolta. Hann er fyrirmynd fyrir alla fótboltamenn og einn af fáum heimsklassa fótboltamönnum sem Englendingar hafa átt. Það voru efasemdir um stærð hans þegar hann kom upp hjá United, hversu sorglegt hefði það verið ef að hæfileikum hans hefði verið hent til hliðar áður en hann fékk að sýna þá? Hann var tæknilega frábær, sendingar hans og auga fyrir spili voru alltaf frábær. Hann gat skorað mörk af öllum gerðum, þrumuskot af 30 yarda færi, pot eða hann gat komið á ferðinni inn í teiginn og skallað inn. Auk þess var framkoma hans utan vallar fullkominn. Það var viðeigandi að hann lagði skóna á hilluna eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar en United sendi frá sér yfirlýsingu þegar hann var sjálfur í sumarfríi. Þess vegna kláraði Scholes ferilinn sinn í Manchester. Það er annað en David Beckham sem þráir sviðsljósið. Beckham kallaði meira að segja til blaðamannafundar þegar hann hætti sem fyrirliði enska landsliðsins. Það hafði aldrei verið gert áður - og hefur ekki verið gert síðan. Scholes fékk aldrei það hrós sem hann átti skilið hjá enskum fjölmiðlum en allir leikmenn sem spiluðu með honum eða á móti vissu hversu góður hann var. Það segir allt að frábærir leikmenn eins og Messi, Xavi og Iniesta sem og fleiri vildu fá treyjuna hans eftir leikinn á Wembley. Eins og Zinedine Zidane sagði, 'fyrir mér var hann besti miðjumaður sinnar kynslóðar.'

Ég náði að fara í nokkra daga til Englands til að hitta fjölskyldu mína í fríinu. Það var frábært að sjá þau og bestu vini mína. Þegar ég var þar hitti ég vin vinar míns í íþróttabúð og hann spurði hvernig mér gengi og óskaði mér um leið til hamingju með að verða faðir. Ég leit á hann eins og hann væri ruglaður en áttaði mig síðan á að hann hlýtur að hafa verið á Facebook á þeim 90 mínútum þegar þar stóð: 'er að verða pabbi' þegar við vorum í ratleik. Það er ekki allt sannleikur sem þú lest.

Að lokum, þá eru tveir Skotar komnir til Fram en það eru Steven Lennon og Scott Robertson sem hafa verið á reynslu hjá okkur. Alan Lowing hefur verið að rugla íslensku strákana og kærustu mína með drottningar ensku og núna höfum við fengið tvo í viðbót svo ég gæti þurft að byrja að vera þýðandi. Ef þú vilt heyra hvernig þeir hljóma og fá innsýn í líf Skota þá getur þú skoðað þátt sem heitir "The Scheme". Þú getur fundið hann á YouTube. Skotar í hnotskurn!
banner
banner
banner