Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 14. desember 2004 14:32
Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári - Chelsea (11)
Við hér á Fótbolti.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði árið 2004. Við birtum svo ítarlegan pistil um hvern og einn leikmann eða einn á dag í desembermánuði í jóladagatalinu okkar.

Númer 11 var valinn enginn annar en Eiður Smári Guðjohnsen leikmaður Chelsea:



Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson15. september 1978 gerðust undur og stórmerki í knattspyrnusögu lítillar eyju í Norður Atlantshafi.  Þá fæddist drengur í höfuðborginni sem seinna átti eftir að verða besti knattspyrnumaður landsins frá upphafi.

Litla eyjan sem um er rætt er Ísland og drengurinn heitir Eiður Smári Guðjohnsen sem nú, 26 árum síðar, er fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður með ríkasta íþróttafélagi heims, Chelsea.

Foreldrar Eiðs Smára eru Ólöf Einarsdóttir og knattspyrnumaðurinn Arnór Guðjohnsen sem á sínum tíma var einn ástsælasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Arnór var valinn íþróttamaður ársins árið 1987 en hann náði frábærum árangri með Anderlecht og íslenska landsliðinu.

Frá fæðingu var fótboltinn nánast eina leikfang Eiðs Smára og sex ára gamall hóf hann að æfa fótboltann með drengjaliðinu Brussegemi í útjaðri Brussel.

Þegar Eiður var 9 ára gamall var hann orðinn aðal markaskorari liðsins. Í fyrstu fjórum leikjunum haustið 1987 skoraði Eiður 12 mörk í 4 leikjum. Á tímabilinu 1986-1987 skoraði Eiður 23 mörk en Arnór 19 og má því segja að Eiður hafi haft betur í samkeppninni við föður sinn.

,,Ég segi oft að draumurinn sé sá að leika í sama liði og Eiður Smári, jafnvel með íslenska landsliðinu. En við ætlum ekki að setja of mikla pressu á hann, áhugi hans beinist algerlega að fótboltanum sem stendur en það gæti allt breyst. Hann verður að finna það sjálfur þegar fram líða stundir hvort knattspyrnan verði hans atvinna eða eitthvað annað" sagði Arnór árið 1987. Sem betur fer hélt Eiður áfram knattspyrnuiðkuninni!

Á sumrin fór Eiður Smári hinsvegar til Íslands þar sem hann keppti með ÍR.  Hjá ÍR var hann frá 6. flokki og upp í 4. flokk og á þeim tíma varð hann meðal annars markakóngur Tommamótsins í Vestmannaeyjum árið 1988 en það mót var undanfari móts sem er þekkt sem Shellmótið í dag.

Er foreldrar Eiðs Smára skildu árið 1990 flutti hann heim til Íslands með móður sinni og stundaði nám við Snælandsskóla og spilaði knattspyrnu á sama tíma með ÍR.

Er Eiður Smári var þrettán ára gamall sagði hann í viðtali við skólablað Snælandsskóla að framtíðardraumar hans væru að verða valinn íþróttamaður ársins. 13 ára gamall spilaði hann sinn fyrsta landsleik fyrir drengjalansliðið.  Ári síðar er hann var orðinn 14 ára gekk hann í raðir Vals þó fleiri lið hafi komið til greina.  Þannig hafnaði Hafnarfjarðarlið FH því að fá hann til liðs við sig þar sem félagið vildi ekki greiða fyrir hann strætókort.  Ákvörðun sem líklega er ein sú lélegasta í íslenskri knattspyrnusögu.

Mynd fengin úr Íslensk Knattspyrna 1994Þegar hann var á eldra ári í þriðja flokki Vals, þá aðeins 15 ára gamall, var hann tekinn inn í meistaraflokkslið félagsins sem þá háði baráttu í efstu deild hér á landi.  Þetta var 23. maí 1994 er hann spilaði fyrir Val gegn ÍBK aðeins 15 ára og 250 daga gamall og varð um leið yngsti leikmaðurinn til að spila í efstu deild hér á landi.  Hann lék 17 leiki á tímabilinu og skoraði í þeim 7 mörk og varð markahæsti Valsarinn á tímabilinu. Á lokahófi knattspyrnumanna þá um haustið var hann svo valinn efnilegasti leikmaður mótsins.

Þetta var sumarið sem Eiður sló fyrst í gegn.  Stórlið Evrópu voru farin að skoða hann og lið eins og Barcelona, Sampdoria og Feyenoord höfðu sýnt honum áhuga.  Um haustið gerði hann svo langan samning við hollenska félagið PSV Eindhoven sem stjórnað var af Dick Advocaat.  Samningurinn var til þriggja ára með viðbótarsamningi til fjögurra ára sem átti að taka gildi um leið og sá fyrri myndi renna út.

Er hann hafði verið í einn vetur í unglinga- og varaliðum PSV komst hann í aðalhóp félagsins.  Þá var hann aðeins 16 ára gamall.  Honum gekk vel á æfingatímabilinu og skoraði mörg mörk gegn liðum úr neðri deildunum.  Það var svo þegar farið var að líða að jólum að Eiður Smári var í fyrsta sinn valinn í leikmannahópinn.  Það var í leik gegn NAC Breda þar sem Eiður kom inná sem varamaður.  Í næsta leik á eftir skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir félagið þegar hann kom inná sem varmaður í 7-0 sigri á Voldenam.

Eins dauði er annars brauð og því kynntist Eiður Smári fljótlega eftir þetta.  Þá meiddist brasilíski framherjinn Ronaldo og Eiður Smári var því skyndilega orðinn þriðji sóknarmaður liðsins.  Til loka tímabils var hann sex sinnum í byrjunarliðinu í deildinni en spilaði 13 leiki í heildina og skoraði í þeim 3 mörk.

Ronaldo er tveimur árum eldri en Eiður en vegna meiðsla þeirra beggja léku þeir ekki mikið saman í framlínu PSV, aðeins 1-2 leiki.

Árið 1996 var faðir hans, Arnór Guðjohnsen enn að spila knattspyrnu þó tekið væri að halla á seinni hlutann hjá honum. Söguleg stund átti sér stað sem að vissu leiti varð mikil vonbrigði fyrir þá feðgana. Þeir voru báðir valdir í íslenska landsliðið sem mætti Eistlandi í vináttuleik í Tallinn 24. apríl og ef þeir myndu ná að spila leikinn saman yrðu þeir fyrstu feðgarnir í heiminum til að spila saman í landsliði.  Arnór byrjaði leikinn en Eiður byrjaði á varamannabekknum.  Þegar farið var að líða á síðari hálfleikinn var gerð skipting, Arnór kallaður af velli og inná kom Eiður Smári, aðeins 17 ára gamall í sínum fyrsta landsleik og kom inná fyrir föður sinn.

En þeir áttu enn eftir að spila saman.  Landsliðsþjálfarinn Logi Ólafsson gaf loforð að það yrði gert í næsta leik, er Ísland mætti Makedóníu í undankeppni HM, 1. júní 1996 á Laugardalsvelli.  Þetta yrði stór stund fyrir feðgana að spila saman í fyrsta sinn í alvöru leik og í fyrsta sinn saman í landsliði.

En áður en það náði að verða gerðist hræðilegur atburður.  Viku fyrir bikarúrslitaleikinn í Hollandi, 7.maí 1996, átti íslenska unglingalandsliðið að mæta Írum í Evrópukeppninni og átti möguleika á að komast áfram.  Advocaat vildi ekki að hann færi en Eiður ákvað að slá samt til eftir pressu frá Íslandi.  Í þessum leik varð svo það atvik sem átti eftir að fara illa með ferilinn.  Eiður var að verjast stungusendingu Íranna og skýldi boltanum svo hann færi út fyrir endalínu íslenska liðsins.  Þá renndi írskur framherji sér í fótinn á honum sem fór í spað við tæklinguna.  Öll liðbönd slitnuðu og fóturinn var brotinn við ökkla. Eiður var fluttur á sjúkrahús þar sem röntgenmyndir leiddu þetta í ljós og þetta var of mikið fyrir 17 ára dreng sem grét í símann er hann tilkynnti móður sinni um hvað hafði gerst.  Landsleikurinn með pabba var úr sögunni og draumurinn frá árinu 1987 varð að engu.

En þetta var mun alvarlegra en í fyrstu var talið.    Hann fór beint til Hollands frá Írlandi þar sem hann gekkst undir aðgerð og var sagt að hann yrði frá í 4-5 mánuði.  En margt kom uppá áður en hann kæmist á kreik á ný og eftir sex aðgerðir í kjölfar meiðslanna náði hann loks að spila knattspyrnu á ný tveimur árum síðar.

Vorið 1998 er Eiður var ekki enn búinn að ná sér að fullu því verkurinn var enn til staðar.  Hann prófaði alls kyns lyf, vítamín og náttúruefni án þess að sár verkurinn færi og honum var sagt að hann myndi aldrei spila knattspyrnu á ný.  Þá fór hann til Rosenborg í Noregi þar sem hann var skoðaður og látinn æfa með liðinu.  Á aðeins vikutíma hvarf verkurinn hjá norsku sérfræðingunum og félagið vildi semja við hann.

En ekkert varð af því að Eiður færi til Rosenborg og hann og eiginkona hans, Ragnhildur, sem hafði verið með honum úti allt frá því hann fór til Hollands fluttu til Íslands og áttu hér sitt fyrsta barn, Svein Aron.  16. maí gekk Eiður Smári í raðir KR á lánssamningi frá PSV fyrst um sinn þar til samningur hans rann út.  Líkamlegt form hans var mjög lélegt.  Hann hafði lítið æft árin þar á undan og var einfaldlega feitur.  Hann kom inná í leik gegn ÍR 9. júní en þetta var hans fyrsti leikur frá því hann fótbrotnaði.  Í byrjun tímabilsins snéri  faðir hans Arnór aftur heim og spilaði með Val í deildinni.  1. júlí mættust KR og Valur í bikarkeppninni.  Eiður byrjaði á bekknum hjá KR en Arnór var í byrjunarliði Vals.  Eftir aðeins 20 mínútna leik kom Eiður Smári inná sem varamaður og mættust feðgarnir því í fyrsta sinn.  Hvorugur þeirra skoraði þó í 4-1 sigri KR.  20. júlí mætti Valur liði KR en sama dag hafði Eiði verið boðið til æfinga hjá Bolton Wanderers og því varð ekkert úr því að feðgarnir mættust á nýjan leik. Hann spilaði sex leiki fyrir KR en skoraði ekkert mark á þeim tíma.

Eftir aðeins eina æfingu hjá Bolton Wanderers  í æfingaferð til Írlands vildi Colin Todd þáverandi stjóri félagsins semja við hann strax þrátt fyrir líkamlegt form.   Eiður var ekki samningsbundinn KR og samningurinn við PSV Eindhoven var runninn út og því fór hann frítt til Bolton Wanderers 4. ágúst. Hjá félaginu voru fyrir tveir íslenskir landsliðsmenn, Guðni Bergsson og Arnar Gunnlaugsson. 

Í byrjun september lék hann sinn fyrsta landsleik í 29 mánuði eða síðan hann fótbrotnaði árið 1996.  Þá lék hann með U-21 árs landsliði Íslands gegn Armeníu og skoraði eina mark Íslendinga í 3-1 tapi en meiddist lítillega í leiknum og missti því af næsta leik gegn Rússum fjórum dögum síðar.

Um miðjan  september 1998 lék hann sinn fyrsta leik fyrir Bolton er hann kom inná sem varamaður gegn Birmingham í ensku 1. deildinni. Fyrsti leikur hans í byrjunarliði Bolton var í lok fyrsta tímabilsins, mars 1999 nánar tiltekið.  Hann vakti strax mikla athygli og skoraði jöfnunarmörk í tveimur leikjum í röð fyrir félagið sem komst í umspil um sæti í úrvalsdeildinni en tapaði fyrir Watford á Wembley.

Í apríl mánuði 1999 var Eiður valinn í A-landsliðshóp Íslands sem mætti Möltu í æfingaleik.  Bolton fór fram á að Eiður slyppi við leikinn og var orðið við þeirri beiðni. 4. september lék hann hinsvegar sinn fyrsta A-landsleik frá fótbrotinu er Ísland mætti Andorra, Eiður skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í 3-0 sigri eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Á sinni annarri leiktíð með Bolton sló Eiður Smári fyrst almennilega í gegn á Englandi. Hann skoraði 20 mörk fyrir Bolton, þar af 13 í 41 leik í deildinni og svo í öllum umferðum bikarsins fram í undanúrslit þar sem Bolton féll út.

Á tveimur leiktíðum skoraði hann 22 mörk fyrir Bolton en vegna fjárhagsörðuleika félagsins var ákveðið að selja þennan mikilvæga framherja 20. júní árið 2000 á 4 milljónir punda.  Kaupandinn var enska úrvalsdeildarliðið Chelsea. Meðal annarra liða sem höfðu rennt hýru auga til hans voru Tottenham og Newcastle auk þess sem orðrómur var um að Manchester United vildi fá hann til sín.  Eiður skrifaði undir fimm ára samning við Lundúnarliðið og var farinn að æfa í kringum heimsþekkta knattspyrnumenn eins og Marcel Desailly, Frank  Leboeuf og Gianfranco Zola og þjálfarinn sjálfur Ginaluca Vialli sem hafði hringt í hann til Íslands áður en gengið var frá samningum.

Fyrsta tækifærið í búningi Chelsea kom í leiknum um góðgerðarskjöldinn 13. ágúst 2000 og svo aftur í fjórða leik deildarinnar er liðið mætti Aston Villa.  Leiknum lauk með markalausu jafntefli og skömmu síðar hætti Vialli með liðið og annar Ítali, Claudio Ranieri var ráðinn í hans stað.  Ranieri hafði strax trú á Eiði Smára og setti hann í byrjunarliðið í sínum fyrsta leiknum undir hans stjórn gegn Liverpool.  Hann lagði upp fyrsta markið og skoraði annað í 3-0 sigri og var að leiknum loknum valinn maður leiksins.  Í desember þetta ár skoraði hann fimm mörk í fjórum leikjum.  Í heildina skoraði hann 13 mörk þessa leiktíð þar af 10 mörk í 17 leikjum sem hann spilaði í deildinni. Í desember mánuði var hann valinn leikmaður mánaðarins í deildinni eftir að hafa skorað 5 mörk í jafnmörgum leikjum.

Í september mánuði 2001 var Eiður mikið í fréttum fjölmiðla eftir að hann og fleiri leikmenn Chelsea voru ásakaðir um dónaskap við Bandaríkjamenn á bar í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september þetta ár.  Hann og þrír aðrir leikmenn voru sviptir hálfsmánaðar launum frá félaginu en síðar kom í ljós að hlutur Eiðs var mun minni en hinna þriggja.

Á annarri leiktíðinni voru Eiður Smári og vinur hans Jimmy Floyd Hasselbaink orðnir heitasta sóknarpar landsins.  Saman skoruðu þeir 50 mörk á leiktíðinni en Eiður skoraði þar af 24 mörk í 48 leikjum og átti sitt besta tímabil á ferlinum. Þetta ár, 2002, vann Chelsea enska bikarinn en þetta var í raun annar titill hans með félaginu eftir að hafa unnið leikinn um Góðgerðarskjöldinn árið 2000.  Um sumarið voru nokkur félög á Ítalíu farin að sýna honum áhuga auk þess sem hann var mikið orðaður við Manchester United.  Þetta varð til þess að Chelsea setti 12 milljón punda verðmiða á hann sem ekkert félaganna lagði í.

Á tímabilinu 2002-2003 urðu ýmsar ástæður fyrir því að sóknardúettinn hættulegi spilaði mun minna saman.  Meiðsli, lélegt form og liðsval Ranieri varð til þessa en Eiður byrjaði tímabilið í meiðslum og skoraði áður en yfir lauk aðeins 10 mörk allt tímabilið í 35 leikjum.  Í upphafi ársins 2003 birtust sögur í ensku blöðunum af því að Eiður ætti við spilafíkn að stríða og hafi eytt háum fjárhæðum í fjárhættuspil á meðan honum leiddist einum í London þar sem eiginkona hans var á Íslandi.  Þrátt fyrir neikvæða umræðu í blöðunum svaraði hann þó fyrir sig á vellinum og skoraði flottasta mark ferilsins í leik gegn Leeds United með hjólhestaspyrnu.  Í lokaleik tímabilsins gegn Liverpool kom Ken Bates stjórnarformaður félagsins inn í búningsklefann og hélt ræðu yfir leikmönnunum.  Möguleiki var á að vinna sæti í Meistaradeild Evrópu ef leikurinn ynnist og leikmennirnir áttuðu sig á að til að tryggja framtíð félagsins sem var mjög illa statt fjárhagslega varð að vinna þennan leik.  Það hafðist og Chelsea lék því í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Það sem gerðist hinsvegar eftir að leiktíðinni lauk er ein ótrúlegasta flétta sem enginn hefði getað séð fyrir. Chelsea var í rústum fjárhagslega þar til forríkur milljarðamæringur frá Rússlandi kom með peningatöskurnar sínar og keypti félagið og bauð fram alla heimsins peninga í leikmannakaup.  Með komu Roman Abramovich fékk Ranieri frjálsar hendur og gat keypt alla leikmenn sem hann vildi.  Eiður Smári hélt þrátt fyrir það starfi sínu hjá félaginu og skoraði á leiktíðinni 13 mörk í 40 leikjum en þar á milli var blanda leikja í byrjunarliði og sem varamaður í stjörnum prýddu liði. Þegar leið á leiktíðina varð hann æ mikilvægari hlekkur hjá liðinu og fékk fleiri tækifæri.   Í júní mánuði var skipt um landsliðsþjálfara hjá íslenska landsliðinu og nýr þjálfari, Ásgeir Sigurvinsson gerði það sitt fyrsta verk að skipta um landsliðsfyrirliða og lét Eið Smára hafa bandið sem hann bar svo fyrst í leik gegn Færeyjum 7. júní.

Strax og tímabilinu í Englandi lauk sumarið 2004 var Claudio Ranieri rekinn frá félaginu og nýr maður ráðinn. Það var Portúgalinn Jose Mourinho sem nokkrum vikum áður hafði gert Porto að Evrópumeisturum.  Hann kom inn í félagið með nýjar áherslur og miklar breytingar.  Fjöldi leikmanna hvarf á braut og fjöldi leikmanna var keyptur inn fyrir peningana í töskunum hans Roman Abramovic.  Enn hélt Eiður Smári sæti sínu en nú voru komin ný nöfn í samkeppni við hann um framherjastöðuna.  Adrian Mutu sem hafði komið í tíð Ranieri, Mateja Kezman markamaskína frá PSV og Didier Drogba frá Marseille áttu nú að berjast við Eið Smára um stöðuna í framlínunni.  Fljótlega helltist Mutu úr lestinni og eftir stóðu þrír.  Eiður Smári var aðalframherji liðsins og þegar þetta er skrifað nokkrum dögum fyrir jól hefur hann leikið 19 leiki á leiktíðinni og skorað í þeim 9 mörk.

Í dag er Eiður Smári Guðjohnsen besti knattspyrnumaður sem Íslendingar hafa átt.  Hann spilar í ríkasta knattspyrnufélagi heims sem gefur knattspyrnustjóra sínum kost á óþrjótandi magni peninga til að nýta sér í leikmannakaup en þrátt fyrir það vill félagið alltaf halda þessum dreng. 

Hann er fyrirliði íslenska landsliðsins og leggur sig alltaf fram á vellinum. Utan vallar er hann mjög viðkunnanlegur og kurteis í samskiptum sínum og veit að hann er fyrirmynd margra ungra knattspyrnumanna. 

Þótt ótrúlegt sé hefur hann enn ekki náð að uppfylla draum sinn frá 13 ára aldri um að verða valinn íþróttamaður ársins og er það eitthvað sem margir undrast. Það verður spennandi að sjá hvað gerist þann 28. desember þegar valið verður kunngert en Eiður kemur að sjálfsögðu sterklega til greina sem handhafi titilsins.


Heimildir:

Íslensk knattspyrna ritröðin eftir Víði Sigurðsson
Viðtal Víðis Sigurðssonar við Eið Smára sem birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2002.
Skólablað Snælandsskóla 1991
Arnór - Bestur í Belgíu eftir Víði Sigurðsson 
Hinar ýmsu vefsíður


Athugasemdir
banner
banner