fös 07. september 2018 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Elmar ætlar að nýta tækifærið - „Mikið basl" í Tyrklandi
Icelandair
Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er alltaf jafngaman,” sagði miðjumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason þegar Fótbolti.net náði af honum tali á hóteli landsliðsins í St. Gallen í Sviss. Theódór var hinn hressasti í viðtalinu.

Theódór Elmar var ekki í upprunalega hópnum hjá Erik Hamren og Frey Alexanderssyni, en var kallaður inn þegar í ljós kom að Jóhann Berg Guðmundsson gæti ekki tekið þátt í verkefninu.

„Hann er búinn að vera einn af lykilmönnunum í liðinu en eins leiðinlegt og þetta er fyrir Jóa, þá er þetta tækifæri fyrir mig. Ég verð að nýta mér það tækifæri.”

Ísland er búið að æfa við bestu aðstæður í Austurríki síðustu daga og Elmar er mjög ánægður með gang mála. „Þetta er búið að vera frábært. Við höfum æft við virkilega góðar aðstæður, það er allt jákvætt hingað til, þetta lítur vel út.”

Ísland er að fara að spila við Sviss og Belgíu í A-deild Þjóðadeildarinnar. Þetta er tvö feykilega sterk lið.

„Þetta verða tveir erfiðir leikir, gríðarlega sterk lið. En við höfum margoft sýnt það að við getum strítt hverjum sem er á góðum degi. Mér sýnist allir vera tilbúnir í verkefnið.”

Aðspurður segist Elmar vera vongóður um að fá spiltíma í þessu verkefni. „Ég er alltaf vongóður. En svo er bara að sjá hvernig hlutirnir þróast, ég er tilbúinn ef kallið kemur.”

Vesen í Tyrklandi
Elmar er á mála hjá Elazigspor sem spilar í tyrknesku B-deildinni. Á síðustu leiktíð var liðið að eltast við umspilssæti um að komast upp í úrvalsdeild en það stefnir ekki í neitt álíka á þessu tímabili. Þegar farið var inn í landsleikjahléið var liðið á botni deildarinnar með aðeins eitt stig.

Íslenski landsliðsmiðjumaðurinn er ekki vongóður fyrir tímabilinu. Hann talaði hreint út varðandi það.

„Þetta mun verða ströggl á okkur,” sagði Elmar en liðið er í fjárhagsvandræðum og gat ekki keypt neina nýja leikmenn, unglingarnir eru að fá tækifærið núna hjá Elazigspor. „Þetta verður basl.”

„Það er nokkuð ljóst,” sagði Elmar þegar hann var spurður út í það hvort hann væri mjög áhyggjufullur.

„Það er fín pása (frá vandræðunum í Tyrklandi) að koma hingað.”

Því miður er ekki hægt að birta myndskeið með viðtalinu vegna tæknilegra örðugleika.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner