fös 13. september 2019 14:49
Elvar Geir Magnússon
Lið Arnars dæmt 5-0 tap eftir gjaldþrotsdóminn
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Getty Images
Belgískir fjölmiðlar segja að Roeselare, liðið sem Arnar Grétarsson þjálfari, hafi verið dæmdur 5-0 ósigur gegn Virton í belgísku B-deildinni en liðin áttu að mætast á sunnudaginn.

Forráðamenn deildarinnar reyndu fyrst að fá Virton til að samþykkja aðra dagsetningu á leiknum en það tókst ekki.

Þar sem Roeselare var á dögunum dæmt gjaldþrota og á meðan staðan er sú má félagið ekki keppa né standa fyrir æfingum. Leikmenn liðsins hafa þó verið að æfa en talsmenn félagsins segja að það sé á vegum þeirra sjálfra.

Roeselare var dæmt gjaldþrota eftir að eigandi veitingastaðar fór í mál við félagið vegna skulda. Þegar málið var tekið fyrir mætti enginn fulltrúi frá Roeselare.

Eftir dóminn kom yfirlýsing frá félaginu þar sem fyrrum stjórn þess var kennt um og sagt að núverandi stjórnarmenn hefðu ekki vitað af þessum skuldum. Sagt var að búið væri að standa við allar skuldbindingar og fjárhagsmálin komin í góðan farveg.

Forráðamenn Roeselare vinna að því að fá gjaldþrotsdóminn felldan úr gildi en málið verður tekið fyrir í næstu viku.

Arnar Grétarsson var ráðinn þjálfari Roeselare í byrjun ágústmánaðar. Liðið er með tvö stig eftir fimm umferðir í belgísku B-deildinni.
Athugasemdir
banner
banner