Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 04. desember 2019 21:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kristall Máni: Stefni að sjálfsögðu á að komast í aðalliðið hjá FCK
Mynd frá U19 æfingu í haust.
Mynd frá U19 æfingu í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U19 æfði á Íslandi í haust.
U19 æfði á Íslandi í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristall Máni Ingason er sautján ára knattspyrnumaður sem er á mála hjá FC Kaupmannahöfn. Hann gekk í raðir liðsins frá Fjölni snemma árs 2018.

Kristall hefur þar leikið bæði með U19 ára liði FCK sem og með varaliði félagsins. Hann var í U19 ára landsliðinu sem tryggði sér inn í milliriðla fyrir EM2020 eftir góðan árangur í Belgíu.

Fótbolti.net hafði samband við Kristal og ræddi við hann um tímann hjá FCK og yngri landsliðunum. Fyrsta spurningin snerist um félagaskiptin til FCK, hvernig kom til þeirra?

Kristall var á varamannabekknum hjá Fjölni gegn Val sumarið 2017. Hálfu ári seinna skrifar hann undir hjá danska stórveldinu, vakti það athygli liða erlendis að 15 ára leikmaður var á varamannabekknum í Pepsi-deildinni?

„Fyrir þennan leik gegn Val var ég búinn að fara til Brøndby og skoða þar aðstæður. Ég var líka búinn að kíkja til FCK," sagði Kristall við Fótbolta.net.

„Ég held að ástæðan fyrir því að FCK tók mig var góð frammistaða þegar ég kíkti út til þeirra. Ég tel að það hafi ekki breytt neinu þó ég hafi verið á bekknum hjá Fjölni."

Voru fleiri lið að skoða Kristal á þessum tíma?

„Ég pældi ekkert í því hvort það voru fleiri lið að skoða mig á þeim tímapunkti. Ástæðan fyrir því er sú að mér leist mjög vel á FCK, ég veit ekki hvort það voru fleiri félög að skoða mig."

Sáu Kristal fyrir sér í aðalliði FCK í framtíðinni
Kristall gekk í raðir FCK snemma ársins 2017 þá nýorðin 16 ára. Hvernig sáu menn hjá FCK Kristal fyrir sér? Nokkur ár í unglingaliði og svo upp í aðalliðið?

„Þegar ég skrifa undir þá segja menn frá FCK við mig að þeir sjái mig fyrir sér í aðaliðinu í framtíðinni."

„Það er það eina sem ég man því mér fannst það vera það eina sem skiptir máli."

„Þetta veltur allt á manni sjálfum hvað maður er lengi að komast í aðalliðið, stefnan er að sjálfsögðu að komast þangað."


Fyrstu U19 leikirnir hjá FCK komu í vor
Kristall spilaði sína fyrstu leiki með U19 ára liði FCK í vor. Hvernig var að komast upp í U19 úr U17?

„Það var frábært. Ég var í u17 á þessum tíma og spilaði eiginlega ekkert með þeim vegna meiðsla."

„Ég er að snúa til baka úr meiðslum og spila nokkra æfingaleiki með u19 eftir meiðslin. Þá er ég færður upp í u19 sem var alveg frábært, kominn skrefi nær aðalliðinu."


Spilar mest í hægri bakverði
Kristall hefur verið í stóru hlutverki hjá U19 ára liði FCK á þessari leiktíð og spilað tíu leiki með félaginu í vetur. Þá hefur hann tvisvar sinnum verið varamaður hjá varaliði félagsins, í annað skiptið kom hann við sögu.

Kristall hefur að mestu leikið sem kantmaður eða sem framherji en FCK hefur eitthvað verið að prófa hann í öðrum stöðum. Hvaða stöður hefur Kristall verið að leysa?

„Ég byrjaði sem hægri og vinstri kantur hjá u19. Í síðustu átta leikjum hef ég leikið í hægri bakverðinum."

Hvernig finnst honum að spila í bakverðinum?

„Mér finnst það jafn skemmtilegt og að vera á kantinum. Ég fæ boltann allavega miklu oftar en þegar ég er á kantinum."

„Mér finnst samt skemmtilegast að vera frammi ef ég á að vera alveg hreinskilinn."

„Ég er búinn að leggja upp nokkur mörk með U19 sem bakvörður. Eins og staðan er núna er horft á mig sem hægri bakvörð en maður veit ekki hvernig hlutirnir verða þegar líður á tímabilið - ég gæti þess vegna spilað aftur sem framherji þegar líður á tímabilið."


Hvað kom til að Kristall var tvisvar sinnum í hóp í varaliðssleik?

„FCK er tæknilega séð ekki með varalið en í þau skipti sem liðið leikur varaliðsleik þá leika með því leikmenn úr aðalliðinu og nokkrir leikmenn úr U19."

Hefur Kristall æft með aðalliði félagsins í vetur?

„Ég hef æft eitthvað með aðalliði FCK í vetur, það hefur verið að detta inn æfing og æfing undanfarið."

Snemma kominn inn í U17 ára landsliðið
Kristall lék sinn fyrsta U17 ára landsleik í febrúar árið 2017, þá nýorðinn fimmtán ára. Hvernig var að koma inn í landsliðið og gaf það honum trú á að hann myndi ná langt á ferlinum?

„Það var náttúrulega frábært að byrja snemma með U17 ára landsliðinu."

„Það gefur manni mikla innspýtingu í að reyna ná sem lengst. Ég er ennþá að vinna í því að vera besta útgáfan af sjálfum mér. Svo er þetta einfaldlega frábær reynsla sem maður fær úr landsleikjunum."


Ungur en fáránlega góður hópur
Kristall var hluti af U17 ára liðinu sem lék í lokakeppni U17 á Írlandi í vor. Í haust var hann valinn í U19 og hefur skorað tvö mörk í fimm leikjum með liðinu.

Voru vonbrigði að detta út í riðlinum í lokakeppninni í vor?

„EM U17 var frábær reynsla, frábært að fá að spila á þessu móti."

„Markmiðið hjá okkur öllum var að komast í 8-liða úrslitin sem við vorum virkilega nálægt að komast í. Því miður tókst það ekki og það var svekkjandi. Svona er boltinn, þetta gerir okkur bara betri sem skiptir mestu máli."


Hvernig hefur verið að koma í U19 og hvernig var í Belgíu? Átta leikmenn sem voru í U17 hópnum í vor byrjuðu gegn Albaníu í lokaleiknum í riðlinum í Belgíu.

„Þetta hefur verið skemmtilegt með U19. Við erum með ungan en fáránlega góðan hóp."

„Mótið í Belgíu var að sjálfsögðu erfitt, allir landsleikir eru erfiðir. Við gerðum mjög vel og komumst upp úr riðlinum, við spiluðum vel og áttum skilið að fara áfram."


Hvernig er að leika unglingalandsleiki, snýst allt um að vinna?

„Við (leikmennirnir sem eru valdir) erum í þessum unglindalandsliðum til að undirbúa okkur fyrir A-landsliðið en ef þú getur unnið leikinn þá auðvitað vinnuru leikinn."

Íslenska liðið endaði í öðru sæti á eftir heimamönnum í Belgíu. Hvernig var leikurinn gegn heimamönnum?

„Leikurinn á móti Belgum var svolítið skrítinn leikur. Ef við hefðum skorað fyrsta mark leiksins þá hefði leikurinn, að ég held, endað allt öðruvisi."

„Því miður endaði leikurinn ekki nógu vel en við svöruðum bara með 'stæl' á móti Grikkjum og Albönum."

„Mér finnst liðið okkar vera í sama styrkleika og lið Belgíu. Mögulega aðeins betra meira að segja en ég er mögulega hlutdrægur í því mati."


Hugsar einungis um að æfa og spila vel
Í gær var dregið í milliriðlana fyrir EM2020 fyrir U19 ára landsliðin. Lokakeppnin fer fram í ágúst á næsta ári en milliriðillinn sem íslenska liðið er í fer fram á Ítalíu í mars. Að lokum: hvernig líst Kristal á það verkefni?

„Ég er ekki byrjaður að hugsa um það á þessum tímapunkti. Ég hugsa bara um að æfa og spila vel til að ég fái að taka þatt í því verkefni."

„Við fengum riðil með Ítölum, Slóvenum og Norðmönnum. Ef við spilum vel ættum við að ná í góð úrslit gegn þeim þjóðum,"
sagði Kristall Máni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner