Bikarmeistarar Crystal Palace eru úr leik í enska bikarnum eftir að hafa tapað óvænt fyrir utandeildarliði Macclesfield, 2-1, á Leasing.com-vellinum í Macclesfield í dag. Þetta er stærsti sigur í sögu Macclesfield.
Macclesfield er aðeins tæplega sex ára gamalt félag en það var stofnað eftir að Macclesfield Town var lagt niður vegna fjárhagsvandræða árið 2020.
Nýja liðið spilar undir stjórn John Rooney, yngri bróður Wayne sem lék með Manchester United og enska landsliðinu.
Lið Palace var nokkuð sterkt. Marc Guehi, Yeremy Pino og Adam Wharton voru allir í byrjunarliðinu.
Macclesfield tók óvænta forystu á 43. mínútu leiksins er Luke Duffy kom með frábæra aukaspyrnu inn á teiginn á Paul Dawson sem stangaði boltann í fjærhornið.
Meistararnir skelkaðir og hvatti þetta Glasner til að gera þrjár breytingar í hálfleik en hann átti líklega ekki von á því að fimmtán mínútum síðar kæmi annað mark frá Macclesfield.
Það var einhver hræðilegasti varnarleikur sem sést hefur frá Palace á þessu tímabili. Leikmönnum tókst ekki að vinna einvígi né hreinsa boltann frá eftir þónokkrar tilraunir. Á endanum kom slakt skot í átt til Isaac Buckley sem skoraði með laglegri hælspyrnu í hægra hornið.
Palace lagði allt í sölurnar eftir annað mark. Christantus Uche kom boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu og þá varði Max Dearnley frábærlega frá Adam Wharton.
Pressan skilaði sér á lokamínútunum en þá minnkaði Yeremy Pino muninn með frábæru aukaspyrnumarki. Tók sinn tíma fyrir Palace að ná inn marki en það reyndist of seint.
Utandeildarliðið sló bikarmeistarana úr leik og er það Macclesfield sem fer áfram í næstu umferð.
Leicester vann 2-0 sigur á Cheltenham. Patson Daka, sem er ný kominn heim úr Afríkukeppninni og Stephy Mavididi skoruðu mörkin.
Úlfarnir slátruðu Shrewsbury Town, 6-1. Norðmaðurinn Jörgen Strand Larsen skoraði þrennu. John Arias, Rodrigo Gomes og Toluwalase Arokodare komust einnig á blað.
Góður sigur fyrir Wolves sem vonast til að þetta keyri sjálfstraustið upp fyrir komandi leiki í ensku úrvalsdeildinni.
Staðan í leik Everton og Sunderland er 1-1 en James Garner tryggði Everton inn í framlengingu með marki úr vítaspyrnu undir lok venjulegs leiktíma.
Úrslit og markaskorarar:
Cheltenham Town 0 - 2 Leicester City
0-1 Patson Daka ('24 )
0-2 Stephy Mavididi ('45 )
Everton 1 - 1 Sunderland (Framlenging í gangi)
0-1 Enzo Le Fee ('30 )
1-1 James Garner ('89 , víti)
Macclesfield 2 - 1 Crystal Palace
1-0 Paul Dawson ('43 )
2-0 Isaac Buckley-Ricketts ('61 )
2-1 Yeremy Pino ('90 )
Wolves 6 - 1 Shrewsbury
1-0 Jorgen Strand Larsen ('9 )
2-0 Jhon Arias ('11 )
2-1 John Marquis ('26 , víti)
3-1 Jorgen Strand Larsen ('41 )
4-1 Jorgen Strand Larsen ('58 )
5-1 Rodrigo Gomes ('87 )
6-1 Tolu Arokodare ('90 )
Athugasemdir




