Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mið 16. júlí 2008 09:17
Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir enn að spila - lék í marki Tindastóls
Vanda í markmannsbúningnsum í leiknum gegn Hetti sem fór fram í júní síðastliðnum. Þetta var í fyrsta sinn á löngum ferli sem hún lék sem markvörður.
Vanda í markmannsbúningnsum í leiknum gegn Hetti sem fór fram í júní síðastliðnum. Þetta var í fyrsta sinn á löngum ferli sem hún lék sem markvörður.
Mynd: Ómar Bragi Stefánsson
Þó svo Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari Landsbankadeildarliðs Breiðabliks útiloki að taka fram skóna með liðinu er hún enn að spila á Íslandsmótinu þrátt fyrir að vera orðin 43 ára gömul.

Það vakti athygli á síðustu leiktíð þegar Vanda sem þá þjálfaði Tindastól tók fram skóna og lék með liðinu í 1. deild en að tímabilinu loknu sagðist hún endanlega hætt að spila og tók við þjálfun Breiðabliks sem leikur í Landsbankadeildinni.

Það stóð þó ekki lengi hjá henni því 21. júní síðastliðinn tók hún fram skóna að nýju til að hjálpa Tindastóli sem var í vandræðum. Að þessu sinni spilaði hún þó ekki úti á vellinum eins og hún er vön heldur í marki Tindastóls sem mætti Hetti í 1. deild kvenna.

,,Markvörður Tindastóls meiddist og það var hringt í mig klukkutíma fyrir leik," sagði Vanda í samtali við Fótbolta.net í gær en hún hefur aldrei leikið í marki áður. ,,Dóttir mín sagði 'mamma varði allt nema tvö'," bætti hún við en leiknum lauk með 1-2 sigri Hattar.

Þrátt fyrir að vera enn að útilokaði Vanda þó að nýta sér það að félagaskiptaglugginn opnaði hér á landi í gær og stendur út mánuðinn í að fá félagaskipti yfir í Breiðablik til að geta stokkið inn ef til þarf.

,,Ég kemst ekki í þetta lið, það er alveg ljóst. Ég á engan séns," sagði Vanda hress að lokum.
Athugasemdir
banner