Búast við að De Bruyne skrifi undir - Chelsea vill kaupa Trafford - Thiago spilandi aðstoðarþjálfari Barca - PSG býður 100 milljónir fyrir...
   fim 01. febrúar 2024 17:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar Alex í FC Kaupmannahöfn (Staðfest)
Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson.
Mynd: FC Kaupmannahöfn
Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson hefur skrifað undir samning við FC Kaupmannahöfn sem gildir til ársins 2027.

Hann yfirgaf Arsenal fyrr í dag og kemur til FCK á frjálsri sölu.

Rúnar Alex var á láni hjá Cardiff í Championship-deildinni fyrri hluta tímabilsins en velska félagið er að fá inn annan markvörð og lánssamningnum við Arsenal var svo rift.

Rúnar Alex kom frá Dijon í september 2020 og kom við sögu í sex leikjum á fyrsta tímabilinu hjá Arsenal. Í þeim hélt hann þrisvar sinnum hreinu.

Hann er 28 ára og hefur verið á láni síðustu tímabil. Fyrst fór hann til OH Leuven í Belgíu, næst til Alanayspor í Tyrklandi og svo síðast Cardiff.

Rúnar Alex, sem á 27 A-landsleiki fyrir Ísland, kemur til með að veita Kamil Grabara samkeppni en sá er svo að fara til Wolfsburg í Þýskalandi eftir tímabilið.

Hjá FCK verður Rúnar liðsfélagi Orra Steins Óskarssonar.

„Ég þekki félagið, borgina og deildina mjög vel. Ég veit að þetta er stórt félag og ég hlakka til að vera hluti af hópnum," segir Rúnar Alex sem spilaði með Nordsjælland í Danmörku fyrir nokkrum árum síðan.

Athugasemdir
banner
banner