Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 01. október 2019 14:18
Magnús Már Einarsson
Kristinn Steindórs á förum frá FH - Vill festa sig í ákveðinni stöðu
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kristinn Steindórsson er væntanlega á förum frá FH en samningur hans við félagið rennur út um miðjan mánuðinn.

„Það er mjög ólíklegt að ég verði áfram og ég er að skoða næstu skref. Ég ætla að skoða hvernig landið liggur og hvað verður í boði," sagði Kristinn við Fótbolta.net í dag.

Hinn 29 ára gamli Kristinn kom til FH frá sænska félaginu GIF Sundsvall fyrir sumarið 2018. Hann spilaði sautján leiki með FH í Pepsi-deildinni í fyrra og tólf leiki í sumar, þar af tíu í byrjunarliði. Síðari hluta tímabils spilaði hann lítið.

„Það er alltaf leiðinlegt að fara frá einhverju liði. Mér leið mjög vel hjá FH og þetta er flottur klúbbur. Það var ekki mikið um spiltíma og það var rót á manni í stöðum á vellinum þannig að maður komst aldrei almennilega í gang. Það var það leiðinlegasta við þetta. Þetta er flottur klúbbur og það er leiðinlegt að vera ekki áfram en maður þarf að hugsa um sjálfan sig líka og finna stað sem hentar betur til að fá að spila og hafa gaman að þessu."

Kristinn ólst upp hjá Breiðabliki en hann skoraði tólf mörk þegar liðið varð Íslandsmeistari 2010 og ellefu mörk árið eftir en þá spilaði hann mest á kantinum. Kristinn fór til Halmstad í Svíþjóð og Columbus Crew í Bandaríkjunum áður en hann fór til GIF Sundsvall 2016. Hjá FH hefur Kristinn spilað mest á miðjunni en hvaða stöðu vill hann helst spila?

„Síðastliðin 2-3 ár hef ég spilað nánast bara á miðjunni. Mér finnst það fínt og ég get spilað þá stöðu og gert það vel. Þetta fer auðvitað eftir því hvar maður endar og hvað þjálfarinn er að hugsa."

„Það væri best að fá ákveðna stöðu og spila hana bara, þannig að maður sé ekki að flakka á milli hvort sem það er kantmaður, framliggjandi miðjumaður, varnarsinnaður miðjumaður eða hvað það er. Ég er ekkert ákveðinn í að spila bara ákveðna stöðu, maður ræður því ekki sjálfur. Ég vil fá að spila og traust og stöðugleika í þeirri stöðu sem ég verð í. Þá fer maður að spila betur,"
sagði Kristinn við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner