Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 02. febrúar 2021 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Eitthvað í kollinum sem sagði að ég ætti frekar að fara í stórveldi hér heima"
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Mist Pálsdóttir gekk í raðir Breiðabliks að láni frá FH út komandi leiktíð. Andrea er miðjumaður sem uppalin er hjá Þór/KA en hélt til Ítalíu fyrir síðustu leiktíð og gekk svo í raðir FH.

Andrea var gestur í Heimavellinum í síðustu viku og ræddi við þær Huldu Mýrdal og Mist Rúnarsdóttur um skiptin í Íslandsmeistaraliðið í Kópavogi.

„Maður segir allt ljómandi bara, fyrir utan það að við erum þjálfaralausar, þau mál eru öll í vinnslu. Þegar ég fór á fund með stjórninni þá var Steini ekkert búinn að heyra í KSÍ en það breyttist fljótt, svona er þetta bara," sagði Andrea og vísar þar í að Þorsteinn Halldórsson var ráðinn landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins skömmu eftir að Andrea skipti yfir í Blika.

Hvernig er að vera komin í grænt?
„Það er skrítið að vera komin í grænt því grænt fer mér svo illa en fólk er ekki sammála því. Annars líður mér vel að vera komin í Kópavoginn."

Hvernig kom það til að þú fórst í Blika?
„Þegar ég samdi við FH þá var það rætt þannig að ef FH myndi falla þá myndi samningurinn renna úr gildi. Við ákváðum svo í sameiningu að ég myndi áfram vera á samning og færi á lán. Það var af því ég stefndi á að fara út en út af covid þá er allt svo mikið spurningarmerki. Ég var svolítið hrædd um að fara aftur út og svo yrði deildinni aflýst og ég föst eins og kom fyrir á Ítalíu [á síðasta ári]."

„Ég tók desember mjög rólega og fór á nokkra fundi með nokkrum liðum. Þetta eru lið í toppbaráttunni og það tók alveg á að velja á milli. Um leið og ég fór á fund með Steina þá vissi ég nákvæmlega hvert mig langaði."


Það hlýtur að vera skellur að Steini er ekki lengur þjálfari liðsins?
„Já, auðvitað er það skellur. Ég spurði hann á fundinum um leið: Verður þú þjálfari? Því mig langar að spila fyrir þig. Á þeim tímapunkti stefndi ekki í að hann tæki við landsliðinu en ég er mjög glöð fyrir hans hönd, þetta er frábært tækifæri fyrir hann og alla þjálfara dreymir um að vera með A-landsliðið."

„Hann henti svo á mig að það væri ennþá meiri pressa á mér að koma mér í landsliðshópinn. Ég stefni á það og vona það besta."


Ertu búin að liggja undir feldi síðan í haust?
„Já, ég fékk á tímabili nokkur tilboð að undan sem ég skoðaði vel. Allt stefndi í að ég færi út en svo var eitthvað í kollinum sem sagði að ég ætti frekar að fara í stórveldi hér heima og ná kannski að toppa aðeins meira í sumar."

„Ég endaði á góðum nótum með FH en fannst ég ekki alveg hafa sýnt nógu mikið. Ég hugsaði þetta þannig að ef ég fer í topplið hér og næ að sanna mig þar þá koma kannski betri tilboð að utan í haust."


Andrea segir að hún hafi fengið tilboð frá Þýskalandi, Portúgal og Skotlandi en samningarnir hafi ekki verið nægilega heillandi. Andrea ræddi einnig um tímabilið með FH í fyrra, ævintýrið á Ítalíu og landslðið. Hlusta má á viðtalið hér í spilaranum neðst í fréttinni. Andrea kemur inn á 55. mínútu.

Annað úr viðtalinu við Andreu Mist:
Topp fimm "gullfætur" úr efstu deild kvenna
Heimavöllurinn - Steini fékk giggið, gullfótur í Kópavog og stórliðin horfa til Íslands
Athugasemdir
banner
banner