sun 02. október 2022 14:56
Brynjar Ingi Erluson
England: Haaland og Foden léku sér að Man Utd í níu marka leik
Þessir tveir áttu risastóran leik á Etihad
Þessir tveir áttu risastóran leik á Etihad
Mynd: EPA
Það var þungt yfir leikmönnum United
Það var þungt yfir leikmönnum United
Mynd: EPA
Antony skoraði glæsimark
Antony skoraði glæsimark
Mynd: EPA
Haaland skoraði þrennu þriðja heimaleikinn í röð
Haaland skoraði þrennu þriðja heimaleikinn í röð
Mynd: EPA
Manchester City 6 - 3 Manchester Utd
1-0 Phil Foden ('8 )
2-0 Erling Haland ('34 )
3-0 Erling Haland ('37 )
4-0 Phil Foden ('44 )
4-1 Antony Santos ('56 )
5-1 Erling Haland ('64 )
6-1 Phil Foden ('72 )
6-2 Antony Martial ('84 )
6-3 Anthony Martial ('90, víti )

Englandsmeistarar Manchester City tóku nágranna þeirra í Manchester United í kennslustund í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Etihad í dag, en leiknum lauk með 6-3 sigri heimamanna. Erling Braut Haaland og Phil Foden buðu til veislu í Manchester-borg.

Man City ætlaði að ganga frá þessum leik strax í byrjun. David de Gea varði frá Kevin de Bruyne áður en Scott McTominay bjargaði á línu en þeir komu engum vörnum við fimm mínútum síðar.

Eftir gott samspil milli leikmanna City skoraði Foden með góðu skoti eftir sendingu frá Bernardo Silva.

Ilkay Gündogan átti stangarskot úr aukaspyrnu á 18. mínútu og áfram hélt City að hóta marki.

Annað marki gerði Erling Braut Haaland eftir hornspyrnu Kevin de Bruyne. Marklínutæknin kom sér vel fyrir þar en Tyrell Malacia reyndi að bjarga á línu. Boltinn var kominn inn fyrir og staðan 2-0 en City var ekki hætt.

Haaland gerði annað mark sitt í leiknum fjórum mínútum síðar eftir laglega sendingu frá De Bruyne áður en Foden skoraði fjórða marki City undir lok fyrri hálfleiks og að þessu sinni eftir sendingu Haaland.

Man Utd kom aðeins ferskara inn í síðari hálfleikinn. Antony skoraði stórbrotið mark á 56. mínútu. Christian Eriksen átti langan bolta út á vinstri, Antony tók við honum, færði hann að marki og lét vaða í vinstra hornið. Stórglæsilegt mark en frábær frammistaða City skyggði á það.

Haaland fullkomnaði þrennu sína átta mínútum síðar. Þriðji heimaleikurinn í röð sem hann skorar þrennu og sá fyrsti í sögunni til að afreka það. Sergio Gomez átti sendingu inn á Haaland sem afgreiddi boltann í netið.

Foden gat ekki verið minni maður og aftur var það Haaland með stoðsendinguna. Ótrúlegur leikur hjá Haaland sem er að leika sér að þessari deild.

Anthony Martial kom inná sem varamaður hjá United og nýtti sér það. Hann klóraði í bakkann á 84. mínútu er hann nýtti sér frákast eftir skot Fred og stangaði boltann í netið.

Undir lok leiks fékk United vítaspyrnu. Joao Cancelo braut á Martial innan teigs og var það Martial sem fór á punktinn og skoraði með skoti í hægra hornið.

Níu mörk í fjörugum leik á Ethiad. Haaland með þrjú mörk og tvær stoðsendingar. Man City er í öðru sæti með 20 stig og hefur skorað 29 mörk í fyrstu átta leikjunum en United er í 6. sæti með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner