Tvær breytingar á liðinu?

Framundan hjá íslenska landsliðinu eru tveir heimaleikir í undankeppni HM. Ísland mætir Úkraínu 10. október og Frakklandi 13. október.
Landsliðshópurinn var opinberaður í gær og ljóst hvaða leikmenn koma til greina í leikina sem eru framundan.
Landsliðshópurinn var opinberaður í gær og ljóst hvaða leikmenn koma til greina í leikina sem eru framundan.
Ísland átti mjög góðan leik á Prinsavöllum gegn Frökkum í síðasta mánuði og við búumst ekki við mörgum breytingum á byrjunarliðinu frá þeim leik. Leikurinn gegn Úkraínu er leikur sem má ekki tapast og Arnar mun tefla sínu sterkasta liði fram.
Við spáum því að það verði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Frökkum. Mikael Neville Anderson tæki sér sæti á bekknum ásamt Daníel Tristan Guðjohnsen. Spurningarmerkin eru hægra megin og nokkrar mögulegar sviðsmyndir.
Það er möguleiki á því að Arnar færi Hákon inn á miðsvæðið, Albert út til hægri, Daníel Tristan í framlínuna með bróður sínum, og Stefán Teit á bekkinn. Hákon og Ísak spiluðu mjög vel gegn Frökkum og kannski vill Arnar halda þeirri tengingu - þó hún hverfi auðvitað ekki ef annar hvor þeirra fer aðeins meira til hægri.
Ef þeir verða heilir þá verða Jón Dagur, Ísak, Andri Lucas, Hákon og Albert alltaf í liðinu.
Þrír af fjórum hljóta alltaf að byrja í varnarlínunni. Mikael Egill er að spila mikið í Serie A og átti góða leiki í síðasta verkefni. Daníel Leó og Sverrir Ingi hafa spilað vel saman, en það er spurningarmerki með Guðlaug Victor. Hann leit ekki nógu vel út í sigurmarki Frakka og spurning hvort Arnar leiti í sóknarsinnaðri bakvörð. Bjarki Steinn er í stóru hlutverki hjá Venezia, svo gæti Mikael farið yfir til hægri og Logi Tómasson í vinstri bakverðinum, en við spáum því samt að Gulli, með alla sína reynslu, byrji í hægri bakverði.
Aftast verður svo Elías Rafn Ólafsson sem var frábær í París og stimplaði sig inn sem aðalmarkmaður landsliðsins.

Athugasemdir