Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 02. desember 2019 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Myndband: Bale hló að bauli stuðningsmanna
Mynd: Getty Images
Gareth Bale er ekki sérlega vinsæll í Madríd um þessar mundir og þá sérstaklega ekki hjá stuðningsmönnum Real Madrid.

Bale hefur oft verið sakaður um metnaðarleysi á tíma sínum á Spáni og þá sérstaklega undanfarið ár. Til dæmis hefur það vakið gremju að hann tali ekki spænsku þrátt fyrir að hafa búið þar í rúmlega sex ár.

Á undirbúningstímabilinu reyndi Real Madrid að losa sig við velsku stórstjörnuna en ekkert félag var reiðubúið til að greiða himinhá laun Bale. Hann virtist ekki í áformum Zinedine Zidane og ferðaðist ekki með liðinu til að keppa æfingaleik gegn Tottenham. Bale sagðist hafa verið að glíma við meiðsli en degi síðar skellti hann sér í golf og vöktu myndir af golfhring hans mikla reiði meðal stuðningsmanna félagsins.

Í síðasta landsleikjahléi tryggði Wales sæti sitt á EM á næsta ári og brutust út mikil fagnaðarlæti. Leikmenn og stuðningsmenn sungu þá afar vinsælt lag sem lýsir forgangsröðun Bale: „Wales. Golf. Madríd."

Skrifað var forgangsröðunina á stóran velskan fána og var Bale sjálfur myndaður þar sem hann var haldandi á fánanum, skælbrosandi.

Eftir hléð átti Real Madrid heimaleik við Real Sociedad og þremur dögum síðar kom franska stórveldið PSG í heimsókn.

Bale kom af bekknum í báðum leikjunum og var mikið baulað á hann. Hér má sjá móttökur stuðningsmanna í 3-1 sigri á Real Sociedad. 

Hér fyrir neðan má svo sjá móttökurnar sem Bale fékk í jafnteflinu gegn PSG. Neikvæðnin virðist ekki hafa mikil áhrif á Bale og hafa viðbrögð hans við baulinu vakið athygli, þar sem hann heldur upphituninni áfram og byrjar að hlæja.


Athugasemdir
banner
banner
banner