Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 03. október 2019 12:15
Fótbolti.net
Þjálfaramálin - Margar sögur sem fljúga um
Endar Óskar í Kópavogi?
Endar Óskar í Kópavogi?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvar endar Ejub?
Hvar endar Ejub?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjössi Hreiðars og Óli Jó.
Bjössi Hreiðars og Óli Jó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heldur Túfa áfram með Grindavík?
Heldur Túfa áfram með Grindavík?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur var látinn fara.
Þórhallur var látinn fara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfaraslúðrið hefur sjaldan verið eins áberandi og einmitt núna. En hvernig er staðan á þjálfaramálunum í tveimur efstu deildum Íslandsmóts karla?

Hér má sjá samantekt á því og við látum fylgja með þær sögusagnir sem háværastar eru.

PEPSI MAX-DEILD KARLA:

KR - Rúnar Kristinsson
Þjálfari ársins verður að öllum líkindum áfram við stjórnvölinn hjá Íslandsmeisturunum. Það hafa verið sögur um að norsk félög séu að horfa til Rúnars, eitthvað sem ætti ekki að koma á óvart, en Rúnar er hæstánægður í Vesturbænum.

Breiðablik - ÁN ÞJÁLFARA
Blikar ákváðu að skipta um þjálfara eftir tvö ár í öðru sæti undir stjórn Ágústs Gylfasonar. Óskar Hrafn Þorvaldsson er líklega að fara að taka við en önnur nöfn heyrast nánast ekki í umræðunni um þjálfarastólinn í Kópavogi.

FH - Ólafur Kristjánsson
Ólafur verður áfram í Kaplakrika en rétt eins og hjá Rúnari Kristinssyni eru þó taldar líkur á því að hann sé á blaði hjá erlendum félögum, þá mögulega í Danmörku.

Stjarnan - Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar verður áfram í Garðabænum en hans vinna fer í að endurnýja í leikmannahópnum. Talað er um að breytingar gætu orðið í teymi aðstoðarmanna hans.

KA - Óli Stefán Flóventsson
Óli verður áfram með stjórnartaumana á Akureyri en verið er að leita að öflugum aðstoðarmanni sem getur tekið við keflinu þegar Óli missir út æfingar af fjölskylduástæðum.

Valur - Heimir Guðjónsson
Heimir var staðfestur sem nýr þjálfari Vals í gær en Valsmenn ákváðu að framlengja ekki við Ólaf Jóhannesson. Ekki er ráðið hver verður aðstoðarmaður Heimis en sagt mögulegt að Sigurbjörn Hreiðarsson verði áfram í þeirri stöðu eftir allt saman.

Víkingur - Arnar Gunnlaugsson
Bikarmeistararnir halda áfram vegferðinni með Arnar við stýrið.

Fylkir - ÁN ÞJÁLFARA
Fylkismenn eru að hlera menn og velta steinum innanbúðar yfir því hver sé besti kosturinn. Ólafur Ingi Skúlason verður væntanlega í teyminu en hvort hann verði ráðinn sem aðalþjálfari er óljóst. Ólafur Jóhannesson, Ágúst Gylfason, Ejub Purisevic og fleiri hafa verið orðaðir við starfið.

HK - Brynjar Björn Gunnarsson
Brynjar hefur verið að gera virkilega flotta hluti með HK og verður þar áfram.

ÍA - Jóhannes Karl Guðjónsson
Jói Kalli gerði fimm ára samning við Skagamenn fyrr á árinu.

Grótta - Óskar Hrafn Þorvaldsson?
Óskar hefur náð stórmerkilegum árangri með Gróttu og framtíð hans verið mikið í umræðunni. Talið er líklegast að hann taki við Breiðabliki. Ef Óskar yfirgefur Seltjarnarnesið gæti aðstoðarmaður hans, Halldór Árnason, tekið við stýrinu. Ágúst Gylfason og Ejub Purisevic eru einnig í umræðunni.

Fjölnir - Ásmundur Arnarsson
Ásmundur kom Grafarvogsliðinu aftur upp í deild þeirra bestu.

INKASSO-DEILD KARLA:

Grindavík - Srdjan Tufegdzic?
Túfa náði ekki að halda Grindavík uppi en hann hefur meðal annars verið orðaður við Þór. Í kvöld er aðalfundur hjá Grindavík þar sem kosin verður ný stjórn sem mun taka ákvörðun um þjálfaramálin.

ÍBV - Helgi Sigurðsson
Helgi var ekki lengi atvinnulaus. Eftir að hafa hlerað menn taldi stjórn ÍBV að Helgi væri besti kosturinn í að reisa Eyjamenn við að nýju.

Leiknir - Sigurður Heiðar Höskuldsson
Siggi Höskulds náði frábærum árangri með Leikni og verður áfram í Breiðholti en liðið fór taplaust í gegnum seinni umferðina.

Víkingur Ó. - ÁN ÞJÁLFARA
Ejub Purisevic er hættur hjá félaginu og stór spurning hver muni leiða Ólafsvíkurliðið inn í nýja tíma? Sigurður Jónsson og Elinbergur Sveinsson sem hafa gert flotta hluti með 2. flokk ÍA eru sagðir á blaði og þá hefur Ólafur Brynjólfsson, sem var aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í sumar, einnig verið nefndur.

Keflavík - Eysteinn Húni Hauksson
Eysteinn heldur áfram að byggja upp Keflavíkurliðið.

Þór - ÁN ÞJÁLFARA
Gregg Ryder var látinn fara eftir eitt ár í Þorpinu. Túfa og Páll Viðar Gíslason hafa verið orðaðir við þjálfarastólinn fyrir norðan.

Fram - Jón Þórir Sveinsson
Ekkert hefur heyrst neitt annað úr herbúðum Fram en að Jón verði áfram.

Afturelding - Arnar Hallsson
Allt bendir til þess að Arnar verði áfram eftir að hafa haldið Mosfellingum uppi.

Magni - Sveinn Þór Steingrímsson
Það var mikil bæting á Magnaliðinu eftir að Sveinn tók við í sumar og hann náði að halda liðinu uppi.

Þróttur - ÁN ÞJÁLFARA
(Uppfært) Þróttarar náðu með naumindum að halda sér uppi í Inkasso-deildinni en ekki var einhugur innan stjórnarinnar um hvort halda ætti Þórhalli. Hann var svo látinn taka pokann sinn og Þróttarar því í þjálfaraleit.

Leiknir F. - Brynjar Skúlason
Brynjar var þjálfari ársins í 2. deild en Fáskrúðsfirðingar unnu deildina eftir að hafa verið spáð falli fyrir mót.

Vestri - Bjarni Jóhannsson
Gamli refurinn Bjarni Jó náði að koma Vestra upp í Inkasso-deildina.
Athugasemdir
banner
banner
banner